141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

endurbætur björgunarskipa.

471. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu þar sem Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörg um endurbætur og viðhald björgunarskipa á árunum 2014–2021.

Tillaga sama efnis hefur áður verið lögð fram á Alþingi, en nú flytjum við hana á ný í þeirri von að þingið muni ljúka þessu máli. Þetta er auðvitað þverpólitískt mál og um það eiga ekki að ríkja neinir flokkadrættir. Það sést kannski best, virðulegi forseti, á meðflutningsmönnum mínum á þessu máli sem eru hv. þingmenn Björn Valur Gíslason, Vinstri grænum, formaður fjárlaganefndar, Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, og Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Saga björgunarskipa á Íslandi er nokkuð löng. Fyrsta björgunarskipið kom til landsins árið 1929 þegar Slysavarnafélag Íslands beitti sér fyrir því og fékk til þess styrk frá einstaklingum að hér yrði keypt fyrsta björgunarskipið eða fyrsti björgunarbáturinn. Það var síðan árið 1989 sem björgunarskipið Henry A. Hálfdanarson kom til landsins og leysti þar með af hólmi björgunarbátinn Gísla J. Johnsen sem hafði verið staðsettur í Reykjavíkurhöfn frá árinu 1956.

Það má segja að ákveðin tímamót hafi orðið árið 1993 þegar björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein kom til Sandgerðis og þar með hafi hafist uppbygging björgunarskipa víðar á landinu, þó að vissulega hafi liðið nokkur tími þar til næstu skip komu. Á árunum 1996–1997 voru fimm björgunarskip keypt frá þýsku og hollensku sjóbjörgunarfélögunum og voru þau staðsett á Rifi, Ísafirði, Siglufirði, Raufarhöfn og Norðfirði. Það var svo árið 1998 sem við fengum fyrsta ARUN-björgunarskipið okkar, sem er sömu gerðar og þau skip sem Slysavarnafélagið rekur í dag, en það kom til Grindavíkur og var keypt frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu.

Við sameiningu Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar árið 1999 var farið markvisst í að endurnýja gömlu þýsku og hollensku björgunarskipin. Þar sem ARUN-skipin þóttu henta afar vel við íslenskar aðstæður og vera hagkvæm í rekstri var talið skynsamlegt að stefna að því að hafa öll björgunarskipin þeirrar gerðar. Þótti það ekki síður kostur með tilliti til samræmdrar þjálfunar og viðhalds skipanna. Breska félagið var á þeim tíma að skipta út ARUN-björgunarskipum fyrir ný og stærri skip. Því gafst Slysavarnafélaginu Landsbjörg kjörið tækifæri til að endurnýja eldri skip félagsins og loka þar með hringnum, eins og verkefnið var kallað. Honum var lokað árið 2005, m.a. með sérstakri styrkveitingu frá Alþingi, þegar keypt voru skip til Skagastrandar og Hafnar í Hornafirði, en á árinu 2004 höfðu skip verið keypt til Hafnarfjarðar, Patreksfjarðar og Vopnafjarðar.

Endurnýjun björgunarskipaflotans lauk þar með á árinu 2006. Þar voru björgunarskipin orðin 14 talsins, þar af 13 af ARUN Class gerð og þau eiga að geta brugðist við á hafsvæði sem kallað er A1 kringum Ísland og náð þar til hvaða staðar sem er á fimm til sex klukkustundum að hámarki.

Ljóst er að þörfin fyrir björgunarskip er mikil og hún fer vaxandi. Milli 70 og 80 útköll eru skráð á þessi skip á hverju ári á landsvísu, en þar er eingöngu um að ræða útköll þar sem talin er vera bráð hætta fyrir hendi. Skipin sinna ótal öðrum verkefnum, til að mynda æfingum og öðrum verkefnum í þágu bæði opinberra aðila og einkaaðila. Engum blöðum er um það að fletta að öryggi sjómanna á nærhafinu við Ísland hefur aukist mjög með tilkomu þessara skipa, um það eru fjölmörg dæmi.

Árið 2005 var gerður samningur milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneytisins þar sem m.a. er fjallað um nýtingu Landhelgisgæslunnar á björgunarskipunum til eftirlitsstarfa. Þetta var vissulega svolítið umdeilt mál innan Slysavarnafélagsins en samt var ákveðið að fara þessa leið, bæði til þess að styrkja rekstur skipanna og eins til þess að gefa áhöfnunum tækifæri til að fá meiri sjóreynslu og þjálfunarreynslu á skipin.

Það hafa verið mér vonbrigði að þessi samningur hefur ekki verið nýttur eins og upp var lagt með. Ég vonast til þess að Landhelgisgæslan sjái hag sinn í því að nýta þessi skip meira í framtíðinni með þeim hætti sem samkomulagið gerði ráð fyrir. Ég held að slíkt geti verið öllum aðilum til góðs og tryggt áfram undirstöður þess að öryggi sæfarenda á hafsvæðinu, nærhafsvæðinu við Ísland, sé tryggt til lengri tíma.

Flest skipin sem Slysavarnafélagið rekur í dag eru ARUN-björgunarskip sem hafa eins og áður hefur komið fram reynst afar vel við íslenskar aðstæður. Þau höfðu farið í reglulegt og gott viðhald hjá fyrri eigendum, Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu, svokallaða klössun, sem var af mjög háum gæðum. Skipin voru því í mjög góðu ásigkomulagi almennt séð þegar Slysavarnafélagið fékk þau til landsins og fyrir mjög sanngjarnt verð að því er þótti á þeim tíma.

Nú er svo komið að efla þarf viðhald þessara skipa. Það þarf að endurnýja vélar, rafmagn, siglingabúnað og tæki til að halda skipunum í góðu standi til lengri tíma. Sem dæmi má nefna að ástand skipanna á Patreksfirði og á Snæfellsnesi er orðið tiltölulega bágborið, bæði eru þau nánast bara með aðra vélina í fullum afköstum og hina með miklu minni afköstum. Þetta eru kostnaðarsamar viðgerðir sem þurfa að fara fram. Vissulega er ástandið mismunandi á þessum skipum, en viðhaldið kostar meira en svo að Slysavarnafélagið geti eitt staðið undir því.

Með nýjum og öflugri vélum fengist meiri ganghraði í þessi skip, meiri langdrægni og rekstraröryggi ásamt því að eldsneytiseyðsla og allur rekstrarkostnaður mundi lækka umtalsvert. Það má búast við að öll þessi skip þurfi slíka klössun á næstu átta til tíu árum. Þar sem skrokkur og yfirbygging skipanna er í mjög góðu standi er talið hagkvæmt að fara í slíkar aðgerðir þannig að skipin endist þá a.m.k. 15–20 ár til viðbótar. Líklegt er að kostnaður við slíka klössun nemi á bilinu 20–30 millj. kr. án virðisaukaskatts.

Í ljósi þessa, virðulegi forseti, leggja flutningsmenn til að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörg um endurbætur og viðhald björgunarskipa á árunum 2014–2021. Telja flutningsmenn eðlilegt að slíkt samkomulag feli meðal annars í sér fjárframlag af hálfu ríkissjóðs að fjárhæð 30 millj. kr. hvert samkomulagsár miðað við verðlag ársins 2012. Þá leggja flutningsmenn tillögunnar til að innanríkisráðherra verði enn fremur falið að kanna þörf á möguleika á að fá enn öflugri skip á tiltekna staði á landinu. Úttekt hefur verið gerð á slíku með tilliti til þarfar og sú úttekt liggur fyrir og það eru vissulega möguleikar á því að Slysavarnafélagið geti í gegnum systursamtök sín í Evrópu fengið enn öflugri skip fyrir hagstætt verð. Það væri mjög áhugavert að skoða þetta enn frekar.

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að fara yfir mikilvægi björgunarfélaga okkar úti um allt land fyrir samfélag okkar og hversu mikil hagkvæmni þessa sjálfboðaliðastarfs, þessa fórnfúsa starfs, er fyrir samfélagið allt, ekki bara í öryggislegum þáttum sem vega kannski þyngst þegar þetta er metið heldur ekki síður í kostnaðalegum þáttum. Það er alveg ljóst að við gætum aldrei rekið svo öfluga björgunarþjónustu sem raun ber vitni ef hún ætti að vera að fullu launuð.

Eins og hefur komið fram hjá mér er verkefnið um yfirhalningu eða klössun þessara skipa Slysavarnafélaginu ofviða. Það er um að ræða það stórar upphæðir að félagið gæti ekki staðið undir þeim eitt og sér. Það er því mjög mikilvægt að Alþingi grípi inn í og geri samkomulag við félagið sem tryggir rekstur þessara skipa til næstu 15–20 ára og tryggi þar með það rekstraröryggi sem sveitirnar þurfa að búa við og sjálfboðaliðarnir þurfa að geta starfað við. Svo ekki sé nú talað um að viðhalda því öryggi sæfarenda, sjómanna við Íslandsstrendur, sem fylgir því að hafa björgunarskipin á þessum stöðum.

Ég lýk máli mínu með því að ítreka að hér er flutt mál sem er þverpólitískt. Það er samstaða um það meðal flutningsmanna að reyna að greiða því leið í gegnum þingið. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að þetta mál taki ekki of langan tíma í meðförum þingnefnda, það komi inn í þingið og Alþingi geti afgreitt það á vormánuðum og innanríkisráðherra, sem hefur lýst sig mjög samþykkan málinu, geti lokið því í samræmi við niðurstöðu afgreiðslu Alþingis.