141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér var lesið upp áðan bréf frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Það kom kannski ekki á óvart að hv. þm. Jón Bjarnason segði sig úr þingflokki Vinstri grænna. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður virðist áfram vera í Vinstri grænum og mun þá væntanlega halda áfram að verja ríkisstjórnina eins og hann hefur gert allt fram að þessu.

Hér var líka minnst á ræðu forsætisráðherra Bretlands sem er í fréttum í dag. Það er margt forvitnilegt í þeirri ræðu en ein af röksemdunum sem forsætisráðherrann ber fram fyrir því að endurskoða þurfi málið er að Evrópusambandið sé að breytast svo mikið, það sé að þróast í einhverja átt og eðlilegt sé að menn hugi að því hver sú þróun verði. Þetta er athyglisvert og ekki síst í ljósi þess að við Íslendingar erum í viðræðum við þetta bandalag.

Ég tek undir með hv. þm. Björgvin G. Sigurðssyni varðandi sjávarorkuna. Það er mikilvægt fyrir okkur að reyna að ná utan um það mál með sem bestum hætti. Þarna eru, held ég, miklir framtíðarmöguleikar.

Við þingmenn Framsóknarflokksins heimsóttum fyrir skömmu sjávarklasann hérna niðri á Granda. Það var afar athyglisvert. Þarna eru, að mig minnir, í kringum 40 fyrirtæki saman komin, eru að tala saman og reyna að þróa ný störf, þróa hugmyndir í tengslum við sjávarútveginn. Þetta er allt frá því að vera hönnun á ýmsum hlutum í það að auka nýtingu og þess háttar. Það er afar forvitnilegt og afar áhugavert að koma þarna.

Eins og á svo mörgum öðrum sviðum, þar sem eru nýsköpun og tækifæri, sjáum við, og fengum í raun beint í æð, hversu miklu skiptir að hugmyndasmiðirnir séu í beinum tengslum við atvinnulífið. Það er það sem við þurfum að leggja áherslu á, góðir þingmenn, að beita okkur fyrir því að þeir sem eru með góðar hugmyndir geti starfað í nánum tengslum við atvinnulífið, hvort sem það er sjávarútvegur eða eitthvað annað.