141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær ræddi ég við hæstv. fjármálaráðherra um áform hennar og Samfylkingarinnar hvað varðar afnám verðtryggingar. Í svarinu kom fram að í hennar huga væri verðtrygging ekkert annað en skattur, þetta væri krónuskattur, og ég spyr í framhaldinu hvort hæstv. ráðherra hafi þarna verið að tjá þá skoðun að það væri búið að framselja að einhverju leyti skattlagningarvaldið til fjármagnseigenda í landinu. Ég held að það hafi ekki verið nákvæmlega það sem hún meinti en það er mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra gæti að því hvernig hún orðar hlutina í ræðustól.

Í fyrirspurninni ræddi ég um að við framsóknarmenn erum með frumvarp í efnahags- og viðskiptanefnd með tillögu um hvernig við getum unnið að afnámi verðtryggingar á næstu fjórum árum, á næsta kjörtímabili, þar á meðal með því að setja 4% þak á hækkun verðbóta með almennum lögum. Þar eru líka ýmsar tillögur sem ég teldi að við þingmenn ættum að geta náð sátt um.

Í samráðshópi sem við skipuðum öll um peninga og gjaldmiðilsstefnu var bent á að krónan væri sú mynt sem við mundum nýta á næstu árum, jafnvel í áratugi eins og ég tel, og þess vegna væri mikilvægt að taka upp svokölluð þjóðhagsvarúðartæki, að það væri gætt að því hvernig væri haldið á fjármálum ríkisins. Í frumvarpi okkar eru tillögur þess efnis og ég hvet þingmenn sem og ráðherra til að kynna sér þetta frumvarp okkar.

Þarna eru tillögur sem ég tel að við ættum að geta náð sátt um, alveg eins og að samráðshópurinn sem við skipuðum um gjaldmiðilsstefnu náði sátt, náði saman um þær áherslur sem þeir vildu leggja og leiðir sem þeir sáu að voru tækar (Forseti hringir.) þannig að ég ítreka, virðulegi forseti, að ég tel brýnt að nefndin klári að vinna það frumvarp, sjái hvað við getum náð sátt um (Forseti hringir.) og afgreiðum það fyrir þinglok.