141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að geta átt orðastað við hv. þm. Pétur Blöndal um fiskveiðistjórnarmál. Sannleikurinn varðandi fyrirspurn þingmannsins um afdrif kvótafrumvarpsins er sá að það mál er á forræði hæstv. atvinnuvegaráðherra sem hefur haft verkstjórn með því máli allt þetta kjörtímabil, þ.e. sá sem hefur gegnt hlutverki atvinnuvegaráðherra fyrir hönd stjórnarflokksins Vinstri grænna. Það er á hans valdi að leggja málið fram. Hann hefur fengið til þess samþykki beggja þingflokka stjórnarflokkanna með einstökum fyrirvörum frá einstaka þingmönnum eins og alsiða er og eðlilegt í stórum málum. Það er hans ákvörðun hvenær og með hvaða hætti frumvarpið lítur dagsins ljós og við skulum bara vænta þess að það verði innan tíðar.

Þingmaðurinn spyr mig sömuleiðis hvort ég sé því fylgjandi að frumvarpið verði lagt fram. Ég hef sagt það opinberlega að þó að þarna sé ekki um að ræða draumafrumvarpið mitt telji ég í því fólgnar mjög mikilvægar breytingar fyrir alla þá sem lifa af útvegi og fiskveiðum, ekki síst þá sem eru í smábátaútgerð og eru með kvótalitlar eða kvótalausar útgerðir. Þarna er stigið það stórt skref með opnum og vaxandi leigupotti sem menn geta sótt aflaheimildir í á grundvelli verðtilboða um kvótaþing að það er þess virði að stíga það skref frekar en ekkert og binda jafnhliða nýtingarréttinn á fiskveiðiauðlindinni, hafa hann ekki ótímabundinn eins og verið hefur, heldur binda hann í tímabundna nýtingarsamninga eins og gert er ráð fyrir í tillögu að nýju auðlindaákvæði í stjórnarskrá.