141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það kom fram í umræðum um störf þingsins í síðustu viku að minni hluta fjárlaganefndar hefði verið meinað að kalla til gesti til að fjalla um tillögur um nýja stjórnarskrá sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óskaði eftir áliti nefndarinnar á.

Það er alrangt. Fjárlaganefnd fjallaði fyrst um þessar tillögur á fundi sínum 21. nóvember sl. Þar var meðal annars rætt um það hvernig vinnulag nefndarinnar ætti að vera. Ég lýsti því þá yfir að ég mundi ekki hafa frumkvæði að því að kalla gesti fyrir nefndina í þessum tilgangi enda væri það skoðun mín, og svo er enn, að þegar aðrar nefndir óska eftir umsögnum um tiltekið mál sé það á hendi og forræði þeirrar nefndar sem fer með málið að sjá um þá vinnu.

Fjárlaganefnd fjallaði um þessar tillögur á fimm fundum. Sá síðasti var haldinn 16. janúar sl. Þá hafði engin beiðni komið frá minni hluta fjárlaganefndar eða öðrum nefndarmönnum úr meiri hlutanum um að fá gesti á fundi nefndarinnar í þessum tilgangi. Það var því erfitt fyrir mig sem formann eða okkur í meiri hlutanum að neita því sem ekki hafði verið beðið um.

Þetta vildi ég segja til að rétt sé farið með vinnulagið í fjárlaganefnd. Það finnast engin ummerki um það í fundargerðum fjárlaganefndar að borist hafi beiðni um að fá gesti á fundina af þessu tilefni, það finnst ekkert um það í gögnum fjárlaganefndar að slík ósk eða beiðni hafi borist, hvorki til formanns né meiri hluta nefndarinnar. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.