141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Björg Thorarensen prófessor, Ólafur Þ. Harðarson prófessor, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, Indriði H. Indriðason aðstoðarprófessor, Aagot Óskarsdóttir lögfræðingur, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Karl Axelsson, dósent og hæstaréttarlögmaður, Ágúst Þór Árnason deildarforseti, Ragnhildur Helgadóttir prófessor, Skúli Magnússon, lögfræðingur og dómari, Birgir Guðmundsson dósent, Þóroddur Bjarnason prófessor, Helgi Áss Grétarsson lektor, Sigurður Líndal, prófessor emeritus, Ragnar Árnason prófessor, Sigurður Tómas Magnússon prófessor, Þráinn Eggertsson prófessor og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

Þetta eru dæmi um þá fjölmörgu fræðimenn sem hafa gert margvíslegar athugasemdir, stórar og smáar og mjög alvarlegar, við frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem nú liggur fyrir Alþingi. Því miður virðast litlar líkur á að nokkurt tillit verði tekið til athugasemda þessa fólks. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ætlar samkvæmt fréttum að sniðganga sjónarmið þeirra og fara sínu fram. Hér virðist eiga að starfa eftir kjörorðinu „Vér einir vitum“.

Hér undir er sjálf stjórnarskráin, það er hún sem er í húfi. Það er ekki verið að fjalla um eitthvert léttavigtarmál, hæstv. forsætisráðherra. En það breytir engu, hvað sem á dynur, hvað sem tautar og raular, virðist ætlunin að leggja af stað í hreina óvissuferð með stjórnarskrána. Í hópi þeirra sem harðast ganga fram eru þingmenn sem einu sinni boðuðu fagleg og bætt vinnubrögð, en einnig þingmenn sem nú boða betri tíma með góðum vinnubrögðum, samstöðu og bjartri framtíð. Það er í sjálfu sér fróðlegt að sjá. Hitt er þó auðvitað miklu verra að þetta fólk virðist staðráðið í því að (Forseti hringir.) hafa stjórnarskrána sjálfa að leiksoppi.