141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[15:53]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Enn ræðum við fjárhagsstöðu íslenskra heimila og enn án sjáanlegs árangurs vegna þess að ekki er ráðist á rót vandans og það virðist aldrei hafa staðið til.

Forseti. Ég viðurkenni að mér brá í gær þegar fjármálaráðherra sagði úr þessum ræðustól að verðtryggingin væri krónuskattur. Krónuskattur. Ráðherra þessi telur sig jafnaðarmann og því bregður manni eðlilega við að ráðherrann hafi hvorki hreyft legg né lið til að dreifa þessari „skattlagningu“ með sanngjarnari hætti. Afleiðingar verðtryggingarinnar eru að heil kynslóð, stundum kölluð sjálfhverfa kynslóðin, hefur misst allt sitt og er eiginfjárstaða þessa hóps nú neikvæð um 8 milljarða. Hópurinn undir 45 ára er því tæknilega gjaldþrota og það er bæði óréttlátt og óásættanlegt. Vegna verðtryggingar hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um 385 milljarða frá því í ársbyrjun 2008. Þetta verður að leiðrétta. Auknar vaxtabætur til heimila, sem má allt eins líta á sem ríkisstyrk til fjármálafyrirtækja því að þangað fer það beint, duga ekki til þess að leiðrétta þetta.

Hér varð hrun. Við vitum það öll. Það er ekki hægt að búa í samfélagi sem sættir sig við það að demba tapinu á skuldsett heimili á meðan fjármagnseigendur fengu allt sitt fé tryggt af ríkinu.

Hreyfingin hefur lagt fram fimm eða sex þingmál sem snúa að skuldum heimilanna. Nýjustu tillögur okkar gera ráð fyrir því að byrðunum sé deilt á alla hlutaðeigandi aðila. Það finnst mér réttlátt og það finnst mér sanngjarnt.

Forsætisráðherra taldi hér enn og aftur upp öll skuldaúrræðin og vísaði í ýmis meðaltöl. Þá er kannski rétt að rifja upp söguna af manninum sem fór í fótabað í tveimur fötum. Í annarri var ískalt vatn en sjóðandi heitt í hinni. Að meðaltali leið manninum afskaplega vel.