141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[16:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna. Mér finnst reyndar mjög sérkennilegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ætla að kenna krónunni um allan vandann en á sama tíma státa sig af því að hér sé minna atvinnuleysi, meiri hagvöxtur og að kaupmáttur hafi aukist langt umfram það sem er í Evrópulöndunum og Evrópusambandslöndunum, sem hafa einmitt verið í vandræðum með alla þessa hluti. Þarna hefur krónan svo sannarlega bjargað ríkisstjórninni.

Það er vissulega mjög neikvæð hlið á krónunni eða réttara sagt veldur verðtryggingin því að áhættan dreifist ekki jafnt. En það gafst tækifæri til þess að leiðrétta það með hruninu og það tækifæri var ekki nýtt og hefur ekki verið nýtt fram til þessa, það er það grátlega. Það er það sem ég mundi vilja fá svör við hjá hæstv. forsætisráðherra: Þykir hæstv. ráðherra eðlilegt að eingöngu hafi verið gripið til varna varðandi eignahliðina með neyðarlögunum en ekki hugað að hinni hliðinni sem var eðlilegt framhald, þ.e. að taka á skuldahliðinni?

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir ræðst svo ótrúlega harkalega á hæstv. forsætisráðherra. Hún notar reyndar til þess Albaníuleiðina og skammar Framsóknarflokkinn fyrir 90% lán Íbúðalánasjóðs — sem voru aldrei nein 90% lán í raun vegna þess að (Gripið fram í.) það var 15 eða 18 millj. kr. hámark. En hæstv. forsætisráðherra vildi ganga miklu lengra og notaði tækifærið til þess þegar hún varð félagsmálaráðherra. Svo kemur hér hv. þingmaður og ræðst af þessari hörku á forustumann ríkisstjórnarinnar.

Ég fagna því þó að hæstv. forsætisráðherra skuli lýsa sig tilbúna til þess loksins að skoða þak á verðtrygginguna eins og framsóknarmenn hafa nú talað fyrir í nokkur ár og hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur verið óþreytandi við að minna á. Vonandi er hæstv. forsætisráðherra alvara með þetta. Eins fagna ég því að hæstv. ráðherra lýsir sig tilbúna til þess að hitta framsóknarmenn á fundum og heyra eina ferðina enn hvaða lausnir þeir hafa upp á að bjóða. Ég lít svo á að hæstv. ráðherra hafi samþykkt tilboðið um að fá (Forseti hringir.) björgunarsveit framsóknarmanna í heimsókn til þess að ræða þessi mál við sig á lokasprettinum.