141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:15]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Tilefni þess að ég og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson höfum nú óskað eftir sérstakri umræðu í þinginu um raforku-, fjarskipta- og samgöngumál á Vestfjörðum eru þeir alvarlegu veikleikar á öllum þessum sviðum sem afhjúpuðust í veðurofsanum sem gekk yfir norðvestanvert landið skömmu fyrir síðustu áramót þegar allar leiðir til og frá helstu þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum tepptust vegna fjölda snjóflóða, rafmagn fór af fjölmörgum byggðum, allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga líkt og í Árneshreppi, og rafmagnsleysið olli því meðal annars að fjarskiptasendar duttu út þannig að síma- og fjarskiptasamband lagðist af um tíma, þar á meðal Tetra-kerfið sem Almannavarnir, lögregla og björgunarsveitir reiða sig á í hættuástandi.

Umrædda daga og þann skamma tíma sem fjarskipti lágu niðri var ekki aðeins hættuástand á Vestfjörðum; í raun og veru ríkti þar neyðarástand um tíma. En við sluppum vel.

Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar sem nefndin hélt fyrir skömmu með yfirmönnum samgöngu-, raforku- og fjarskiptamála auk fulltrúa frá Almannavörnum og Neyðarlínu kom fram að einungis var mínútuspursmál hvort Vestfirðir yrðu fjarskiptasambandslausir með öllu. Það sem við var að eiga voru samverkandi þættir, dómínóáhrif, óveður teppti samgöngur sem olli því að bjargir komust hvorki til né frá og ekki var hægt að gera við bilaðar rafmagnslínur, rafmagnsleysi olli röskun á vöktun og fjarskiptum, sem ofan á annan upplýsingaskort olli alvarlegu öryggisleysi með tilliti til almannavarna. Með öllu óásættanlegt, sögðu fulltrúar Neyðarlínu og Almannavarna á fundi umhverfis- og samgöngunefndar sem haldinn var vegna málsins nokkrum dögum síðar. Með öllu óásættanlegt.

Sú óásættanlega staða sem þarna skapaðist getur hvenær sem er skapast aftur. Það getur gerst í næstu viku, því að veðuröfgar verða æ tíðari og við erum núna frá því í haust búin að upplifa þrjú ofsaveður yfir landinu sem ekki voru dæmi um nema kannski einu sinni á fjögurra til sex ára fresti hér áður fyrr. En kerfið í dag er það sama og það var um jólin hvað Vestfirðinga varðar. Það er slíkt áhyggjuefni að þing og ríkisstjórn hljóta að íhuga það að endurskoða framkvæmdahraða, verkefnaröð og áætlanir varðandi alla þá þætti sem þarna brugðust; samgöngur, raforku og fjarskipti.

Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann er flýting Súðavíkurganga svo að þau geti orðið næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum. Ég vænti þess líka, á meðan beðið er eftir jarðgöngum, að lagt verði ofurkapp á það að koma upp viðunandi snjóflóðavörnum á Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð.

Ég tel óhjákvæmilegt að áætlanir í raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga verði nú endurskoðaðar í ljósi þessara atburða hvað varðar til dæmis varaafl, ljósleiðaravæðingu og samgöngubætur.

Því vil ég eiga núna orðastað við hæstv. innanríkisráðherra um þessa stöðu og heyra hans sjónarmið og áformaðar aðgerðir til úrbóta. Það gengur ekki að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerist núorðið á hverjum einasta vetri og gerðist að sjálfsögðu að þessu sinni. Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi. Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa á Ísafirði, Bolungarvík, Súðavík, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri við þjóðvegakerfið yfir vetrarmánuðina.

Á Súðavíkurhlíð eru 22 þekkt snjóflóðagil. Um jólin, í veðrinu sem hér er um rætt, komu flóð úr 20 þessara gilja. Þetta sýnir að Súðavíkurgöng hljóta að verða að komast á teikniborðið hið fyrsta og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, en það sýnir líka að nú þarf stórátak í raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga, ekki síst með tilliti til varaafls og ljósleiðaravæðingar.