141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við Vestfirðingar vorum í óveðrinu mikla um jólahátíðarnar minnt óþyrmilega á það mikla öryggisleysi sem íbúar Vestfjarða búa við þegar verður rafmagnslaust og allar samgöngur fara úr skorðum í lengri tíma. Eins og fram hefur komið var rafmagnslaust víða í 40 klukkustundir og enn lengur á svæðum eins og í Árneshreppi. Tilefni er til þess að endurmeta afhendingaröryggi raforku á landsvísu og grípa til aðgerða til þess að jafna stöðu landshlutanna í þeim efnum.

Enn fremur komu fram miklir veikleikar í öllum fjarskiptum og varaaflið reyndist víða ekki vera til staðar þegar á þurfti að halda. Mikil snjóflóðahætta var víða og setti allar samgöngur í uppnám. Það undirstrikar mikilvægi þess að skoða strax möguleikann á því að setja Súðavíkurgöng inn á samgönguáætlun. Súðavíkurhlíð er þekkt snjóflóðahættusvæði og Kirkjubólshlíðin og þarf ekki mikla snjósöfnun til til þess að þar skapist mikil hætta fyrir vegfarendur og veginum þar oft lokað í lengri tíma. Samfélagsleg ábyrgð þeirra aðila sem hafa verið nefndir í þessu sambandi eins og orkufyrirtækjanna, dreifingaraðila eins og Landsnets, einkarekinna fjarskiptafyrirtækja eins og Vodafone og Símans og samgönguyfirvalda, er mikil. Nú verða allir þessir aðilar að fara yfir málin, skoða hvað fór úrskeiðis og hvað er hægt að gera.

Stjórnvöld brugðust hratt og örugglega við hamförum sem urðu af völdum náttúrunnar á Norðurlandi síðastliðið haust og við afleiðingum eldgossins undir Eyjafjöllum. Nú verða allir sem hlut eiga að máli að koma að endurskoðun og uppbyggingu fjarskiptamála og tryggja afhendingaröryggi rafmagns og bæta samgöngur svo koma megi í veg fyrir að íbúar Vestfjarða séu algjörlega einangraðir við sambærilegar aðstæður og sköpuðust um hátíðarnar.

Ég treysti því á hv. innanríkisráðherra að taka til (Forseti hringir.) alvarlegrar skoðunar þá þætti sem falla undir hans ráðuneyti.