141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka öllum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir innlegg þeirra. Ég vil líka þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir það hversu skjótt hann brást við beiðni okkar hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um þessa umræðu, því það veit ég að hann gerði fljótt og vel.

Eitt er það sem við gætum gert nú þegar án þess að miklu þyrfti að kosta til og það er að herða löggjöfina um að tryggja ákveðið varaafl fyrir fjarskipti, með því að setja í lög að ákveðinn tími verði að vera til reiðu með varaafli þegar rafmagnsleysi dynur yfir. Þetta kostar okkur ekki mikið og þetta gætum við gert strax á þessu þingi.

Annað sem við gætum gert og væri mikils virði væri að flýta áformum um ásættanlegar flóðavarnir yfir Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíð, því Súðavíkurhlíð er í raun og veru rússnesk rúlletta. Það er svo svakaleg snjóflóðahætta úr þessum 22 giljum um leið og snjókoma er orðin aðeins meiri en í meðallagi. Eins og ég sagði áðan geta sömu aðstæður skapast aftur í næstu viku. Við vitum ekkert hvenær næsta veður brestur á.

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfjarða hefur fjallað um málið og ákveðið fyrir sitt leyti að skora á yfirvöld og Fjórðungssambandið sem slíkt að gera sérstaka úttekt á afleiðingu rafmagnsleysisins sem varð á Vestfjörðum um áramótin og skoða sérstaklega skipulag og öryggi vetrarþjónustu. Þar er líka lögð þung áhersla á að stjórnvöld tryggi fjármögnun verkefna innan samgönguáætlunar, þ.e. varðandi flóðavarnir á þessum umræddu hlíðum. Mér finnst ástæða til að minna á þetta hér, því þetta er a.m.k. það sem stjórnvöld (Forseti hringir.) ættu að geta hlustað á og gripið til einhverra aðgerða til úrbóta fljótt og vel.