141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka kærlega fyrir þessa ágætu umræðu og svör hæstv. ráðherra. Ég vek athygli á þeirri staðreynd að komið hefur fram mikill samhugur í máli þingmanna í þessu mikilvæga máli. Kannski er það táknrænt að það skuli nú einmitt vera við hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sem hefjum saman þessa umræðu sem undirstrikar örugglega þann vilja okkar allra að reyna að gera sem best í þessum efnum.

Það eru nokkur atriði sem ég ætla aðeins að nefna núna við lok umræðunnar. Í fyrsta lagi er það auðvitað viðblasandi að við þurfum fara í tafarlausar aðgerðir til að tryggja varaafl í rafmagni á Vestfjörðum. Við vitum að þeirri stefnu hefur verið fylgt að reyna að tryggja afhendingaröryggi orku með því að hafa til reiðu meira varaafl heldur en víðast hvar á landinu. Það hafa hins vegar komið fram miklir veikleikar í þeim efnum, eins og við sáum, vegna bilana í dísilrafstöðvunum sem stafa meðal annars af því að þær eru í mörgum tilvikum orðnar mjög gamlar. Ég veit ekki annað en að það sé svo að Landsnet hyggi á framkvæmdir í þeim efnum og þá er mjög mikilvægt að stjórnvöld gangi eftir því að við það verði staðið þannig að þessar framkvæmdir hefjist sem fyrst svo við förum ekki inn í annan vetur við sömu aðstæður og komu í ljós núna á þessum vetri. Það er að mínu mati kannski það brýnasta sem menn geta gert strax og auðvitað með atbeina stjórnvalda.

Í annan stað blasir við, og það hefur komið mjög skýrt fram í þessari umræðu, að við verðum líka að tryggja öryggi varðandi fjarskiptin. Þar eru greinilega ýmsir veikleikar sem við verðum að átta okkur á og bregðast við.

Í þriðja lagi það sem hér hefur verið sagt varðandi samgöngubæturnar og á auðvitað við á Kirkjubólshlíðinni, Súðavíkurhlíðinni og því miður víðar á Vestfjörðum. Menn verða að fara í þá hluti og skoða þá sérstaklega út frá öryggissjónarmiðum sem kannski verða okkur betur ljósir eftir svona atburði en áður. Eins og kom fram er vandinn á Súðavíkurhlíð auðvitað sá að þar eru 22 þekkt snjóflóðasvæði og það er ekki þannig að sum þeirra séu hættulegri eða algengari en önnur heldur geta þessi snjóflóð komið hvenær og hvar sem er. Þessu var öðruvísi til að dreifa á sínum tíma á Óshlíðinni þar sem fjórir, fimm staðir voru hættulegastir en öll Súðavíkurhlíðin er undirorpin því sama og (Forseti hringir.) þess vegna er hlíðin eins hættuleg og raun ber vitni.