141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

verðbréfaviðskipti.

504. mál
[17:14]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þá mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem er á þskj. 646, mál nr. 504.

Í meginatriðum er í þessu frumvarpi mælt fyrir um breytingar á kröfum sem gerðar eru við útgáfu lýsingar þegar verðbréf fyrirtækja eru boðin út og tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Lýsing er samheiti yfir það skjal eða þau skjöl sem skylt er að gefa út við þær aðstæður. Hinn rauði þráður þeirra breytinga sem felast í frumvarpinu er að draga úr íþyngjandi kröfum sem gerðar eru til félaga og fjármálafyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þau hækka hlutafé, enda er gerð lýsingar bæði umfangsmikil og kostnaðarsöm. Breytingarnar bæta beitingu laganna við útboð og töku verðbréfa til viðskipta sem bætir samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem um ræðir þar sem verið er að laga óþörf stjórnsýsluskilyrði og þröskuldar hækkaðir. Á það einkum við um lítil og meðalstór fyrirtæki á mælikvarða Evrópska efnahagssvæðisins og gildir því um fjölda fyrirtækja hér á landi.

Fjárfestavernd er enn fremur aukin í frumvarpinu með tilkomu hugtaksins lykilupplýsingar en þær fylgja samantekt með lýsingu. Er um að ræða staðlað form og á það að hjálpa fjárfestum við að bera saman fyrirtæki þegar taka á ákvörðun um fjárfestingar. Þannig er tryggt að upplýsingar sem veittar eru í lýsingu fullnægi þörfum almennra fjárfesta.

Helstu breytingarnar sem boða þetta í frumvarpinu eru:

Þröskuldur á heildarfjárhæð útboða sem falla undir lýsingarákvæði laga um verðbréfaviðskipti er hækkaður.

Hugtakinu „hæfir fjárfestar“ er breytt.

Breytingar eru gerðar á undanþágum frá gerð lýsinga. Nú geta 150 aðilar tekið þátt í útboði án þess að lýsing sé gefin út í stað 100 aðila áður.

Innihalds- og formkröfum fyrir samantekt sem fylgir lýsingu er breytt. „Lykilupplýsingar“ eru skilgreindar eins og áður kom fram í máli mínu.

Innihalds- og formskilyrði fyrir grunnlýsingar og endanlega skilmála eru hert.

Stjórnsýsluskilyrðum við útgáfu lýsinga er breytt til að auka skilvirkni.

Loks eru hertar kröfur í tengslum við meðferð og miðlun innherjaupplýsinga.

Þetta eru helstu efnisatriði þessa frumvarps og tilgangurinn með flutningi þess sá sem þegar hefur fram komið og legg ég til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.