141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að hið fyrra atriði sem hv. þingmaður tók hér til umfjöllunar eigi við um frumvarp til laga um ársreikninga, sem er næsta mál á dagskrá, en nú er frumvarp til laga um bókhald á dagskrá. Þetta eru mjög skyld málefni og þess vegna eðlilegt að ræða þau saman.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að það mætti auðvitað ganga enn lengra í því að upplýsa um hluthafa frá einni sekúndu til annarrar. Þannig háttar hins vegar til að því miður skila mörg þúsund fyrirtæki ekki þeim upplýsingum sem lög krefja og við í meiri hlutanum höfum þess vegna talið það eðlilegan fyrsta áfanga að gera mönnum að skila þessum upplýsingum einu sinni á ári. Þegar hefur tekist að koma því á að þróa rafræn skil og síðan skil frá stundu til stundar, eins og hv. þingmaður nefndi, er ekkert því til fyrirstöðu.

Hvað varðar ensku eða dönsku í bókhaldinu þá er því til að svara að ég hygg að það hafi verið í formannstíð hv. þm. Péturs H. Blöndals í efnahags- og viðskiptanefnd á vetrinum 2001–2002 sem samþykkt var sú breyting á lögum að heimilt væri að færa bókhald á ensku í þeim tilfellum þar sem starfrækslugjaldmiðill félagsins er annar en íslenskar krónur. Þetta hefur verið praktíserað þannig í meira en áratug og mér er ekki kunnugt um að nokkur maður hafi haft ama af því. Ég held að þetta fyrirkomulag hafi reynst ágætlega og að engar kvartanir hafi komið vegna þess þó að ákveðinn hluti fyrirtækja hafi fengið að gera þetta. Í sjálfu sér er ekki verið að gera annað en að útvíkka þá heimild lítið eitt núna og ég held að það eigi að geta verið vandræðalaust með öllu þó að það mætti út af fyrir sig taka skemmra skref ef vilji er til þess.