141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður að hafa víxlað þessum tveimur frumvörpum en þau eru mjög eðlisskyld og eðlislík. Annað fjallar um ársreikninga og hitt um bókhald og bókhald er einmitt til þess að draga fram ársreikninga þannig að það má segja að málin séu eðlislík að því leyti.

Varðandi íslenskuna er rétt að það hefur ekki verið neitt til ama að hafa reikningana á ensku. Ég held að þetta sé ekki svo stórt mál en það væri kannski ágætt að taka eins og eina umræðu um það.

Það sem mér finnst slæmt við þær breytingar sem hv. meiri hluti nefndarinnar leggur fram er að þær hafa ekki verið sendar til umsagnar eða gestir fengnir til að ræða þær sérstaklega. Nú vinna menn úti á sviðinu bæði við miðlun upplýsinga og útgáfu ársreikninga og svo framvegis og það væri því einnar messu virði að vita hvernig þeir brygðust við því að fara að prenta aftan á ársreikninga einhverja ægilega romsu af öllum hluthöfum sem ég veit ekki hvort nokkur læsi en þar væri bara um að ræða nafn en ekki heimilisfang eða neitt, bara nafn og upphæð hlutar. Það er ekki einu sinni talað um að það eigi að vera í stafrófsröð. Ég held að það yrði ekki mikils virði.

Ég vildi gjarnan að aðilar sem hafa sýnt þessu áhuga, eins og hjá Viðskiptaráði, yrðu fengnir til nefndarinnar til að fjalla um það hvort þetta sé skynsamleg leið eða hvort til sé einhver skynsamlegri. Ég held að skráning allra hlutafélaga hjá Verðbréfaskráningu gæti verið leið, ég er ekki hér með að leggja hana til. Hún yrði jafnhraðvirk og hver önnur skráning en hún mundi þá gilda meðan það væri. Ég mundi leggja til að menn skoðuðu þá leið.