141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir orð hennar. Hún hnykkti á orðum mínum um að þessi ríkisstjórn hefur mest verið upptekin við að rannsaka fortíðina, það ágætt að benda á það. Ríkisstjórnin hefur verið ansi dugleg við að takast ekki á við vanda dagsins í dag og er enn þá að kenna þeim sem sátu í ríkisstjórn á árabilinu 2000–2007 um ófarir sínar, sem er mjög óeðlilegt. Svo tekur ríkisstjórnin til mál sem hún vill láta rannsaka, en ríkisstjórninni er algjörlega ómögulegt að horfast í augu við að farið hafa fram hjá henni mál sem þurfa enn meiri rannsóknar við en það sem hún hefur sjálf farið af stað með.

Ég ítreka að ég fer fram á það í þessari þingsályktunartillögu að það verði skýrt dregið fram hverjir voru ábyrgðaraðilar verðmatsins og hvaða forsendur lágu til grundvallar, því að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra fór af stað með þá yfirfærslu.

Þetta er raunverulega ekki andsvar, þ.e. svar við spurningu hv. þingmanns því að þetta var eiginlega meðsvar hjá henni, en við erum sammála um að ekki er mikilla afreka að vænta frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem hv. þm. formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, er upptekin við að umbylta stjórnarskránni. En ég ætla að upplýsa það og upplýsi hv. þm. Ólöfu Nordal jafnframt um það að ég mun leggja þetta mál fram á nýju þingi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það verður ekki útrætt á þessu þingi vegna þess að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur sagt að það sé eitt mál á dagskrá þingsins til loka þess, þ.e. stjórnarskrármálið.