141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það var athyglisverð ræða sem Cameron flutti um Evrópusambandið. Mér fannst athyglisvert í þeirri ræðu að Cameron benti á aðild að EES-samningnum sem alverstu stöðuna þar sem ríkið tæki við tilskipunum og sæti ekki við sama borð og aðrir. Það má einmitt sjá á þessari aðvörun Camerons að aðild að EES-samningnum sé verri kostur en núverandi aðild, þ.e. að vera með hálfgerða aðild eins og í EES-samningnum en að vera með fulla aðild. Ég tók eftir því, ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur líka tekið eftir því.

Það vakti líka athygli mína að Cameron vill ekki að atkvæðagreiðslan um aðild fari fram nú þegar eða á næstu mánuðum og honum finnst greinilega rétt að fyrst sé reynt að fá fram sérlausnir og breytingar sem hugnast gætu Bretum. Það er auðvitað í góðu samræmi við aðildarferlið hér. Við munum sækja eftir sérlausnum og höfum gert það á ýmsum sviðum. Það er ekkert nýtt, það eru mörg dæmi þar sem samið er um sérlausnir. Finnskur landbúnaður er dæmi þar um og væri ágætt ef hv. þingmaður mundi fletta upp í skýrslu Björns Bjarnasonar sem hann skrifaði á sínum tíma. Þar er að finna tugi dæma um ýmsar sérlausnir sem lönd hafa fengið. Við skulum því skoða málið í heild sinni. Hér er talað um atkvæðagreiðslu 2017 og er greinilegt að Cameron ætlar sér að nýta tímann, ef hann verður við völd, til að fá sérlausnir fyrir Bretland í Evrópusambandinu.