141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vitaskuld rétt hjá hv. þingmanni að tilskipanir gegnum EES-samninginn koma til kasta þingsins og eru afgreiddar hér. En hv. þingmaður veit líka mætavel að við höfum lítil áhrif á þessar tilskipanir. Við sitjum ekki við borðið þar sem samið er um þessi mál og þar vantar mikið upp á fyrst við getum ekki haft áhrif á tilskipanirnar á hinum ýmsu sviðum. Það er það sem skiptir máli.

Ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé ekki það bjartsýnn fyrir hönd Íslands að ekki sé hægt að fá sérlausnir. Ég er mjög bjartsýn á að hægt sé að fá þær í landbúnaði og í sjávarútvegi og það á sér ýmsar skýringar að við erum ekki farin að ræða um sjávarútvegskaflann í Evrópuaðildinni, m.a. það sem dregið hefur verið fram að við teljum rétt að sjávarútvegskaflinn verði ekki bitbein í kosningum hér á landi og að menn taki sér tíma til að skoða hann. (Forseti hringir.) Þeir sem setjast hér að völdum, ef það verður önnur ríkisstjórn (Forseti hringir.) en sú sem nú situr, geta þá haft einhver áhrif á sjávarútvegskaflann.