141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

orð forseta Íslands um framgöngu Breta og hryðjuverkalögin.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður tekur aftur upp þá skoðun sína að Evrópusambandið stefni í átt til sambandsríkis verður hv. þingmaður að hafa í huga að mörg ríki innan Evrópusambandsins hafa tjáð sig um að þau eru í mikilli andstöðu við það að svo verði. Við skulum bara skoða hver þróunin verður og ég hef enga trú á því að það verði niðurstaðan.

Tillaga framsóknarmanna um að stefna Bretum vegna hryðjuverkalaganna er væntanleg inn í þingið. Hún fær sína þinglegu meðferð og ég skoða afstöðu mína til hennar þegar þar að kemur.

Það var vissulega skoðað af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar hvort hægt væri að kæra Breta vegna hryðjuverkalaganna og það var farið yfir lögfræðilegt álit um það efni og niðurstaðan varð að það væri ekki gerlegt. Þess vegna var það ekki gert. (Forseti hringir.) Margsinnis höfum við þó mótmælt þessari beitingu hryðjuverkalaganna í Bretaveldi þegar við höfum hitt bæði fyrrverandi og núverandi forsætisráðherra.