141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

framhald stjórnarskrármálsins.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarskráin er aðalmálið á þessu þingi og mikið um hana rætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Uppi eru samtöl milli flokkanna um vinnutilhögun og meðferð málsins í þinginu. Mjög margar athugasemdir við stjórnarskrána hafa komið fram og ég treysti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyllilega til að halda á þeim og taka tillit til þeirra sem eðlilegar eru. Ég vona að það verði gert og á endanum náum við sátt í þessu máli.

Varðandi það að stjórnarskráin fari í þjóðaratkvæðagreiðslu finnst mér að hún eigi að gera það þegar hún er tilbúin. Ég efast þó um að við náum því samhliða næstu kosningum. Þurfa ekki þrír mánuðir að líða frá því að það er samþykkt á Alþingi og þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram? Það fer því að sneyðast um þann tíma sem er til þess að stjórnarskráin geti farið samhliða kosningum í þjóðaratkvæðagreiðslu, en ef það væri möguleiki hef ég sagt að það hefði verið æskilegt.