141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kjaramál hjúkrunarfræðinga.

[10:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að þessar viðræður séu í gangi og að menn séu að reyna að leggja sitt af mörkum til að leysa málið. Það er hins vegar ljóst að ríkisstjórninni hefur mistekist á þessu kjörtímabili að minnka launamun milli karla og kvenna. Það má segja að það sé ágætt ef á að nota tækifærið sem nú er uppi, ef hægt er að tala um tækifæri, til að ráða þar bót á.

Við hljótum líka að spyrja hvort ráðherrann meti það þannig að hjúkrunarfræðingar — af því að ég er að spyrja um þá stétt að þessu sinni — hvort hann telji að sú leið sem þarna er boðuð sé til þess fallin að róa hjúkrunarfræðinga, að þeir sjái framtíð sína í vinnu fyrir Íslendinga hjá íslenska ríkinu. Er verið að bæta kjör þeirra með þeim hætti að það muni duga til?

Ég er ekki alveg klár á því hvernig hæstv. ráðherra svaraði þessu með stofnanasamningana. Ef hægt væri að skýra það aðeins betur væri ég þakklátur fyrir það því að mér sýnist það eitt aðalmálið í kröfum hjúkrunarfræðinga.