141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kjaramál hjúkrunarfræðinga.

[10:56]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Kannski hefði ég átt að tala skýrar um að það sem var verið að samþykkja með jafnlaunaátakinu er klár viljayfirlýsing um að hér skuli farið í aðgerðir til að jafna launamun. Það skiptir mestu máli og það er mikilvægt að þingið og allir sem hafa fylgst með þessari þróun taki á þessu máli með okkur.

Í öðru lagi er það þannig með stofnanasamninga að þeir eru upphaflega hugsaðir til að rétta af í sambandi við röðun innan kerfis og ekki hugsaðir sem jafngildi kjarasamninga að því leyti heldur er viðbótarsamningur um hvað skuli látið ráða í sambandi við röðun og annað slíkt. Að því leyti er þessi deila líka óvenjuleg, þarna er verið að glíma við uppsagnir en ekki formlegar kjarasamningaviðræður.

Engu að síður er ljóst að það þarf að leysa þetta mál og það verður ekki leyst öðruvísi en að einhverjir fjármunir komi inn í það. Í augnablikinu er verið að vinna með það hvað það muni hugsanlega kosta og hvað þurfi til að koma til að tryggja að hér verði ekki uppsagnir vegna þess að við þurfum á þessu starfsfólki að halda til þess að halda öflugri heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) og halda Landspítalanum í fullum gangi. Ég treysti á að allir aðilar leggi sig fram um það og finni á þessu lausn og er bjartsýnn á að það takist.