141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

samkomulag við kröfuhafa Landsbankans.

[10:57]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 15. desember 2009 var gert samkomulag við kröfuhafa Landsbankans um að gefið yrði út skilyrt skuldabréf í stað þess að íslenska ríkið eignaðist hlut í bankanum. Virði þessa skuldabréfs ræðst af endurheimtum á þeim eignum sem voru færðar yfir á milli nýja og gamla bankans.

Nú hefur það komið fram á opinberum vettvangi, að heimildir séu fyrir því að ein af forsendum þess að þetta samkomulag náði fram að ganga hafi verið sú að kröfuhafarnir hafi gert um það kröfu að íslensk stjórnvöld lýstu því yfir í samningnum að þeir yrðu skaðlausir af ákvörðunum íslenskra stjórnvalda sem væru til þess fallnar að rýra eignasafn bankans.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Getur hæstv. forsætisráðherra staðfest að slíkt samkomulag hafi verið gert? Að kröfuhafar gamla Landsbankans yrðu skaðlausir af ákvörðunum íslenskra stjórnvalda sem gætu verið til þess fallnar að rýra eignasafnið sem er undirliggjandi hinu skilyrta skuldabréfi?