141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

samkomulag við kröfuhafa Landsbankans.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þetta hefur komið fram um skaðleysið. Ákvæðið í samningnum um skaðleysið gagnvart sértækum aðgerðum stjórnvalda sem rýrt gætu kröfusafn bankans var ekki einskorðað við til dæmis sjávarútveg, eins og ég tók eftir í blaði í morgun, heldur var þetta almennt ákvæði og ekki óeðlilegt að kröfuhafar gerðu slíka fyrirvara varðandi eignir sínar, enda er umræðan í samfélaginu mikil um til dæmis afskriftir sem voru á þeim tíma miklar. Það er ekki síst þess vegna sem slíkt skaðleysi var sett inn og hafa slíkar afskriftarkröfur komið, eins og ég nefndi varðandi afskriftir, meðal annars frá stjórnarandstöðunni. Það var því ekki óeðlilegt að sett yrði slíkt ákvæði inn í samningana.

En allar aðgerðir ríkisvaldsins hingað til hafa verið almennar gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum og unnar í samráði við fjármálakerfið og því ekki líklegt að á þetta muni reyna og ekki heldur í tilviki sjávarútvegsins. Þó að þetta ákvæði sé fyrir hendi þá er ekki líklegt að á það muni reyna.