141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Stór ástæða fyrir því að kjör kvenna eru að jafnaði lakari en kjör karla er að í mjög stórum stéttum þar sem konur eru í miklum meiri hluta hefur ríkisvaldið leyft sér að greiða miklu lægri laun en tilefni er til, og því miður komist upp með það. Nú komast menn líklega ekki upp með það lengur, til að mynda hvað varðar heilbrigðisstarfsmenn, vegna þess að við horfum upp á það að heilbrigðisstarfsmenn, að langmestu leyti konur, streyma einfaldlega til annarra landa, ekki síst Noregs, til að ná sér í betri kjör. Það má kannski segja að sem betur fer komast menn ekki lengur upp með að greiða óeðlilega lág laun fyrir þessi undirstöðustörf.

Það hefur hins vegar verið mjög sérkennilegt að fylgjast með því hvernig forgangsröðunin hefur verið á þessu kjörtímabili varðandi opinber störf, sérstaklega störf þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu fólst fyrst og fremst í því að fækka kvennastörfum, ekki síst á landsbyggðinni.

Nú kemur hæstv. ráðherra fram og segir að samkvæmt nýrri samþykkt í ríkisstjórn, núna þremur mánuðum fyrir kosningar, eigi hlutirnir aldeilis að fara að gerast, ný samþykkt sýni að menn ætli að taka á þessum málum. Reynsla undanfarinna ára sýnir þvert á móti að það hafa menn ekki gert þrátt fyrir yfirlýsingar á borð við þessa nýjustu yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, yfirlýsingar eins og — hvað hét það, kynjuð fjárlagagerð? — sem fólst ekki hvað síst í því að fækka kvennastörfum, draga úr vinnu hjúkrunarfræðinga eins og hæstv. ráðherra reyndar viðurkenndi í ræðu sinni og þar með lækka ekki hvað síst laun kvennastétta, þ.e. stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Þetta kallar á grundvallarstefnubreytingu og menn komast ekki lengur hjá því að ráðast í slíka stefnubreytingu