141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:26]
Horfa

Margrét Pétursdóttir (Vg):

Frú forseti. Það liggur í grunninn ójafnrétti milli kynja og milli stétta. Þróun launakjara kvenna hvar sem er á vinnumarkaði er ekki eins og hún ætti að vera. Ég tek sérstaklega fram þann stóra hóp láglaunakvenna sem er ófaglærður og vinnur meðal annars við umönnunarstörf. Starfsmati er ábótavant á vinnumarkaði og þar væri hægt að gera bragarbót á. Einnig er enn þá rifist um launamun á milli stétta og umræður þarf að setja í farveg þar að lútandi.

Það er ekki þannig að hinn almenni markaður hafi ekki hreyft sig til og þar hafi menn byrjað að einblína á málið, en hann er svo sannarlega ekki að gera neitt skárra en ríkisstjórnin, þ.e. hinn opinberi markaður. Opinberi markaðurinn hefur tekið sig vel á. Við sjáum það meðal annars í góðu máli innanríkisráðuneytisins, þar kom upp kynbundinn launamunur og hann var leiðréttur um leið.

Verkalýðsfélögin verða einnig að taka sig á en það liggur löngu slóð ójafnréttis eftir okkur. Það er gott að umræðan sé komin í gang, en ég held hins vegar, ef við tökum bara stutta svarið við því hvernig við eigum að fara að þessu, að við þurfum að taka konur fram fyrir karla í þessum málum. Við þurfum að einblína í kjaramálunum á konur og heyr heyr fyrir — já, segi ekki meir.