141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

bókhald.

93. mál
[11:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Skylt er skeggið hökunni og þau tvö mál sem eru næst á dagskránni, bókhald og ársreikningar, eru af sama meiði. Markverðast í þeim hygg ég, fyrir utan tæknilegar breytingar, er aukið gagnsæi í eignarhaldi í íslensku atvinnulífi, auknar upplýsingaskyldur um eigendur hlutafélaga, bæði í frumvarpinu sjálfu og eins gengur nefndin enn lengra í því að skylt verður að upplýsa um alla eigendur hlutafélaga í fylgiskjali með ársreikningum.

Metnaður og vilji stendur til þess hjá einstaka nefndarmönnum að ganga jafnvel enn lengra og hagnýta sér nútímatækni til að uppfæra slíkar upplýsingar allan sólarhringinn, allan ársins hring svo að alltaf megi ganga að því hverjir eigi slík fyrirtæki. Það er sjálfsagt að fara yfir þær metnaðarfullu hugmyndir hér á milli umræðna með jákvæðum hætti og sömuleiðis þær athugasemdir sem borist hafa frá Íslenskri málnefnd.