141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

bókhald.

93. mál
[11:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við ræðum meðal annars frumvarp um breytingar á ársreikningum. Breytingartillögur hv. meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar ganga að mínu mati ekki nógu langt í að upplýsa um raunverulega eigendur. Það á að skylda til dæmis 365 til þess að gefa aðeins upp að Moon Capital eigi um 43% í 365 en við munum hins vegar ekki vita hver á á Moon Capital.

Það eru ýmsar vísbendingar um víðtækt eignarhald vogunarsjóða hér á landi og eitt af einkennum þeirra er dulið eignarhald í gegnum röð eignarhaldsfélaga sem enda í skattaskjólum. Ein leiðin til þess að hrekja vogunarsjóði út úr hagkerfinu er að skylda lögaðila með takmarkaða ábyrgð til að upplýsa um raunverulega eigendur.

Ég tek því undir beiðni um að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjalli betur um málið og skoði hvernig hægt sé að herða á (Forseti hringir.) upplýsingaskyldunni og tryggja gagnsætt eignarhald.