141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég legg til að hv. nefnd skoði það nákvæmlega hvernig þetta fer saman við stjórnarskrána. Í umræðum um stjórnarskrána hef ég nefnt að rétt væri að hafa sameiginlegt prófkjör allra flokka svo sem eins og þremur mánuðum fyrir kosningar og að kosningabaráttan eigi að standa í þrjár vikur, þ.e. að fjórum mánuðum fyrir kosningar mundu flokkar tilkynna um framboð sín og það fólk sem væri á lista og síðan yrði haldið sameiginlegt prófkjör allra flokka. Þá væri kerfið svipað og hér er notað, menn gætu jafnvel kosið tvo flokka eða fleiri og valið menn af þeim flokkum og þá skiptist atkvæðin. Ég vildi gjarnan að hv. nefnd ræddi þetta í sambandi við breytingar á stjórnarskránni því að þetta kemur inn í þær hugmyndir. Á þeim þremur vikum sem kosningabaráttan til prófkjöra stæði yrði hlé á fundum Alþingis því að mér finnst óhæfa að sumir frambjóðendur geti notað ræðustól Alþingis til að kynna sjálfa sig og málstað sinn á meðan aðrir, sem ekki eru þingmenn, sitji við skarðari hlut. Fyrir utan það að Alþingi, eins og verið hefur í allt haust, yrði meira og minna óstarfhæft þar sem þingmenn yrðu að sjálfsögðu uppteknir við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við kjósendur á meðan á prófkjörum stendur.

Nú er það þannig að minn flokkur er sennilega í fararbroddi hvað lýðræði af þessu tagi varðar, hjá Sjálfstæðisflokknum eru mjög öflug prófkjör, frambjóðendur þurfa að ná til fleiri þúsund manns. Ég mundi því gjarnan vilja að menn skoðuðu sameiginlegt prófkjör allra flokka og væri gott að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þess.