141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:36]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar í þessa umræðu, ég tel það mjög mikilvægt, og eins og ég nefndi áðan sakna ég þess að hér séu ekki fleiri þingmenn til að fjalla um þessi mál og athyglisvert að það eru fyrst og fremst þeir sem hafa verið starfandi í sveitarstjórnum sem hafa brennandi áhuga á þessu máli. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan snýr þetta ekkert síður að þeirri umræðu sem við munum einmitt taka á næstu dögum í þingsal um persónukjör í alþingiskosningum. Við eigum ekki að líta einangrað á málið.

Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram gagnvart sveitarstjórnunum vegna þess að ég trúi því og treysti að sveitarstjórnirnar muni hafa burði, getu og vilja til þess að fara fram með þetta verkefni og þróa það áfram eins og við höfum gert með mörg nýmæli á undanförnum árum á stjórnsýslustiginu.

Ég er líka þeirrar skoðunar að þetta eigi ekki að vera valkvætt þannig að einhver einstök sveitarfélög ákveði að vera með en önnur ekki. Þetta á að vera bundið í lög þannig að réttur íbúanna sé alls staðar sá sami. Það verður hins vegar undir íbúum og kjósendum komið hvort menn nýti sér þann rétt eða ekki. Staðreyndin er sú að þessi réttur hefur ekki verið fyrir hendi, þ.e. hann hefur verið afar takmarkaður eins og hæstv. ráðherra benti hér á, á neikvæðum forsendum með útstrikunum.

Hér er verið að opna fyrir það að kjósandinn fái aukinn rétt til þess að velja. Það er líka verið að opna glugga sem margir hafa verið ósáttir við, að hægt sé að kjósa á milli lista. Það er gert í takmörkuðum mæli og með takmörkuðum rétti. Það er kannski forræðishyggja gagnvart því að flokkar fái einhverju um ráðið.

Eins og Norðmenn hafa þróað þessa leið er hægt að setja aukið vægi á tiltekna frambjóðendur. Það er alla vega aðferðafræði sem hefur orðið til sáttar og samkomulags að útfæra leiðina á þann veg að takmarkanir séu annars vegar og hins vegar aukið vægi, þannig hafa menn náð saman.

Ég tel mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga og þróist frekar í framtíðinni.