141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta. Ég kem hingað fyrst og fremst til þess að votta þessu máli ákveðna virðingu og taka undir þau sjónarmið sem í því birtast. Það er auðvitað búið að gera nokkuð góða grein fyrir málinu. Það gerðu hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Lúðvík Geirsson og svo komu athyglisverð sjónarmið frá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Ég tek undir það með henni að kjósendum er að sjálfsögðu treystandi án forræðis stjórnmálaafla til að velja algjörlega eigin lista. Það er löngu orðið tímabært að bregðast við ákalli almennings um meiri áhrif í kosningum og að kjósendur hafi í enn ríkara mæli en áður áhrif á hverjir gegni trúnaðarstörfum fyrir þá. Nýjasta tækni gerir mögulegt að bregðast við jafnvel flóknustu kosningareglum og þeir útreikningar sem af þeim leiða verða sáraeinfaldir. Ég held að auknir möguleikar fólks til beinni áhrifa hljóti að skila sér í aukinni þátttöku og áhuga á stjórnmálum. Það er ekki síst mikilvægt núna þegar margt bendir til þess að áhuginn fari dvínandi, allar niðurstöður kosningaþátttöku í hinum vestræna heimi sýna okkur það. Þess vegna er þetta frumvarp hæstv. innanríkisráðherra ágætisvegur til framtíðar.

Hér er gert ráð fyrir persónukjöri til sveitarstjórna. Vissulega hafa verið uppi svipuð áform um persónukjör til alþingiskosninga en ég held að menn verði að horfa raunsætt á það því að það mun taka ögn lengri tíma. Það ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að menn hafi hæfilega snarar hendur og sníði hugsanlega agnúa af því máli sem nú er til umræðu og komi því í gegn og samþykki það þannig að hægt verði að kjósa samkvæmt þeim lögum 2014. Mér finnst fara nokkuð vel á því að sveitarstjórnarstigið ryðji þessa braut. Það er rétt að nefna að til skamms tíma og reyndar í langan tíma var kosið með þessum hætti. Ég held að það hafi verið allt til 1994 sem meira en helmingur allra sveitarstjórnarmanna voru kosnir með persónukjöri.

Samhliða þessu frumvarpi liggur annað fyrir þinginu, systurmál getum við kallað það, þar sem er verið að greiða fyrir möguleika sveitarstjórna á að kjósa rafrænt. Það er einnig mikið lýðræðismál og mun auka þátttöku almennings í stjórnmálum auk þess að gera mörgum hópum, svo sem mörgum öldruðum og hreyfihömluðum, mögulegt að nýta kosningarrétt sinn. Ég get í því sambandi tekið undir með hv. þm. Lúðvík Geirssyni að skemmtilegast væri ef þessi mál væru tengd saman og hægt væri að kjósa með rafrænum hætti til sveitarstjórna.

Það frumvarp sem um ræðir gerir ekki einungis ráð fyrir mögulegri röðun innan þess lista sem kjósandi velur heldur er mönnum einnig veittur réttur til að hafa áhrif á aðra lista, þó með takmörkuðum hætti. Menn fara svokallaða norska leið. Það hefði í sjálfu sér verið hægt að velja margar aðrar leiðir en þessi er skýr og klár og veitir mönnum býsna góð réttindi þannig að ég held að það sé alveg ástæða til að styðja hana. Þessi áform falla vel að hinum íslenska sveitarstjórnarkúltúr því að þar er víða mjög rík hefð fyrir því að kjörnir fulltrúar vinni saman þvert á flokka meiri og minni hluta. Mættu margir alþingismenn taka það til eftirbreytni.

Sem sveitarstjórnarmaður fagna ég þeim markmiðum sem koma fram í frumvarpinu og hvet þingið einfaldlega til að ganga nokkuð vasklega til verks svo að almenningi verði færðar þessar lýðræðisumbætur sem fyrst. Svo verðum við að sjá til hvort þessi nýju lög ýti undir uppstokkun á núverandi flokkahugsun og tilheyrandi hjarðhegðun, en það kemur sjálfsagt í ljós. Kannski beinir þetta okkur inn á algjörlega nýjar brautir sem okkur óraði ekki fyrir og ef til vill breytast hlutirnir ekki mikið. Það er hins vegar algjörlega öruggt að með þessu fær almenningur beittari vopn í hendur og þegar honum verður áþreifanlega ljóst hvaða áhrif hann hefur mun hann taka með auknum þunga þátt í stjórnmálum.

Þetta frumvarp er sem sagt bæði eftirsóknarvert og bráðnauðsynlegt.