141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:44]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Hr):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og sakna þess í rauninni að sjá ekki fleiri þingmenn í salnum til að ræða þetta mál. Ég er mikill áhugamaður um lýðræðisumbætur og persónukjör. Ég held að það sé frábært tækifæri að nýta sveitarstjórnarkosningar til þess að ryðja brautina eins og áður hefur komið fram.

Ég held að menn ættu jafnvel að ganga enn lengra. Ég held að menn ættu að veita lagaheimildir fyrir því að kjósa þvert á lista. Þetta gæti orðið fordæmisgefandi fyrir það sem koma skal. Ég held að framtíðin hljóti að bera það í skauti sér að aukin þátttaka almennings í stjórnmálum verði miklu víðtækari en hún er og með öðrum hætti. Samskiptatæknin hefur ýtt undir þetta og einfaldað framkvæmd slíkra hluta, eins og atkvæðagreiðslna o.fl. Ég tel mikilvægt að auka vægi kjósenda, að kjósandinn hafi raunverulegt val um það hverjir gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Það er lýðræðisvakning um allan heim. Ég held að það hljóti í fyllingu tímans að verða þannig að við munum geta haft áhrif og tekið þátt í stjórnmálum í gegnum þau samskiptatæki sem eru í boði og eiga eftir að verða í boði í framtíðinni. Þetta mun allt hjálpa okkur til aukinnar velsældar. Þetta tækifæri mun auðvitað gera það, hvert hænuskref er skref fram á við þó að það sé ekki annað. Ég mundi vilja sjá fleiri taka þátt og heyra í fleirum í þessari umræðu.

Allt sem eykur val kjósandans og dregur úr vægi þess að stjórnmálasamtök geti tekið frá sæti fyrir sig og ráðstafa eins og þeir vilja held ég að sé af hinu góða. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er ég algjörlega sammála því að kjósandinn er fullfær um að velja sér fólk til trúnaðarstarfa.