141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

stimpilgjald.

294. mál
[13:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að afsaka þátt Sjálfstæðisflokksins í þessu máli því hann stóð fyrir fjöldamörgum skattalækkunum á þeim 18 árum sem Sjálfstæðisflokkurinn veitti ríkisstjórn forgöngu og ég ætla ekki einu sinni að byrja að telja allar þær skattalækkanir upp. Eignarskatturinn hvarf, tekjuskattur einstaklinga var lækkaður o.s.frv. sem leiddi til þess að atvinnulífið blómstraði og ég tel að þessi skattur hafi orðið út undan þegar menn voru að slátra sköttum. Að sjálfsögðu hefði hann átt að fara því hann er ekki bara skattur á kaup einstaklinga á íbúðum, sem er alveg furðulegur ef menn þurfa að byrja á því að borga ríkinu ef þeir ætla að kaupa sér þak yfir höfuðið, heldur hamlar þetta líka mjög samkeppni á milli fjármálafyrirtækja og gerir það eiginlega ómögulegt að skipta um. Þótt búið sé að liðka dálítið til er það engu að síður mjög samkeppnishamlandi að borga skatta af skuldabréfum.

Nafnið sjálft gefur til kynna hvað þetta er fornfálegur skattur. Þetta heitir stimpilgjald, þ.e. skjöl voru stimpluð með raunverulegum stimpli og ég meira að segja upplifði það á sínum tíma að vera að stimpla 100–300 skjöl og það var gífurleg vinna. Síðan hefur stimplunin sem betur fer horfið en nafnið situr eftir til merkis um það hversu fornfálegur skatturinn er.