141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

skattafsláttur vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.

105. mál
[14:07]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hefði kosið að segja tvær, þrjár setningar varðandi það mál sem var til umræðu hér fyrr varðandi afnám stimpilgjalda. Það mál sem ég ætla að ræða hér, um skattafslátt vegna aksturs til og frá vinnu, og stimpilgjöldin heyra bæði undir þann málaflokk að vera jákvæð í garð almennings og neytenda, eru ívilnanir, alla vega er skattafslátturinn ívilnun. Það má halda því fram varðandi stimpilgjöldin að þau séu frá upphafi ósanngjarn skattur og hafi mjög neikvæð áhrif bæði á lánamarkaðinn og séu íþyngjandi fyrir neytendur. Við ættum auðvitað að stefna að því að afnema þann skatt, svo það komi hér fram.

Það mál sem ég ætla að mæla fyrir, um skattafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu, er þingsályktunartillaga sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, sem feli í sér heimild ráðherra til að útfæra og setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu innan tiltekinna og skilgreindra atvinnusvæða innan lands verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Í framhaldinu útfæri ráðherra og setji slíkar reglur.“

Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, Ásmundur Einar Daðason, Eygló Harðardóttir og Lilja Mósesdóttir.

Hér er um ívilnun að ræða sem kosta mun ríkissjóð einhverja fjármuni. Þetta er tillaga sem ég hef talað mjög lengi fyrir og tel sé nauðsynleg en ég kaus að leggja hana ekki fram fyrr en á síðari hluta þessa kjörtímabils þegar við værum komin í gegnum erfiðasta skaflinn. Ég taldi að á þeim tíma ætti ástandið í efnahagsmálunum hér að vera orðið þannig að við gætum farið að byggja upp samfélagið að nýju. Það verður að vísu að segjast eins og er, og ég hef nú haft um það nokkur orð, að síðastliðin tvö, þrjú ár hafa vonbrigðin verið mikil hvað varðar atvinnuuppbyggingu og styrkingu efnahagslífsins hjá ríkisstjórninni og hefur verið nokkur biðstaða í þeim málaflokki. Staðan er því ekki eins góð og hún gæti verið.

Tillagan var áður lögð fram á 140. löggjafarþingi, þá sem mál nr. 639, og er hún nú endurflutt lítillega breytt.

Síðustu ár og áratugi hafa þéttbýliskjarnar verið að stækka auk þess sem samgöngur hafa víða batnað og samfélagslegar breytingar hafa orðið verulegar. Orðið hafa breytingar á þróun byggða- og atvinnusvæða. Fólk, jafnt í skilgreindu þéttbýli sem og í dreifbýli, hefur í síauknum mæli leitað í störf í nágrannabæjar- og sveitarfélögum þannig að skilgreiningar og hugmyndir um atvinnusvæði hafa breyst. Sú þróun hefur leitt af sér sífellt stækkandi atvinnusvæði og lengri akstur og ferðir vegna vinnu. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að stækka og styrkja atvinnusvæði í öllum landshlutum og styrkja þannig meginþéttbýliskjarna hvers svæðis. Það samræmist einnig hinni áætlun ríkisstjórnarinnar, 20/20 Sóknaráætlun Íslands, sem er áætlun til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar á mismunandi landsvæðum.

Sú þróun er jákvæð og styrkir byggðir landsins en stækkandi atvinnusvæðum og ferðum fólks langar leiðir í og úr vinnu fylgja einnig vandamál. Eldsneytisverð hefur aldrei verið hærra en nú og sér ekki fyrir endann á hækkunum þar. Og ofan á allt hafa ríkisstjórnarflokkarnir aukið enn álögur á eldsneytisverð, sem haft hefur þær afleiðingar að kostnaðurinn hækkar enn. Nauðsynlegt er að unnið sé að því að auka vægi almenningssamgangna og hefur það verið gert hér síðustu missiri á hverju atvinnusvæði fyrir sig, en það verður að segja að þar er víða pottur brotinn. Það er líka ljóst að á sumum atvinnusvæðum er engum almenningssamgöngum til að dreifa og það verður þannig áfram. Um langan veg er að fara í og úr vinnu. Það er því tillaga flutningsmanna að ráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga á Alþingi um breytingu á tekjuskattslögunum sem feli í sér heimild ráðherra til að setja reglur sem hafi það markmið að hægt sé að fá endurgreiðslu eða frádrátt til þeirra sem hafa af því háan kostnað að koma sér til og frá vinnu og að það verði sem sagt tilgreind atvinnusvæði og skilgreint um hvað um sé að ræða. Fái frumvarpið lagagildi útfærir ráðherrann það og setur slíkar reglur. Sú leið er vel þekkt í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Í þessari tillögu eru rakin nokkur dæmi um útfærslu á ívilnunarkerfi af þessu tagi, til að mynda í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, og ætla ég að hafa nokkur orð um þau hér.

Samkvæmt dönskum skattareglum geta launþegar fengið sérstakan skattafslátt ef ákveðin skilyrði eru til staðar. Er þar vísað í danskar skattareglur og má sjá það í skjalinu ef menn vilja leita að upprunatexta. Ef vinnustaður launþega er í meira en 12 km fjarlægð frá heimili hans á hann rétt á skattafslætti vegna aksturs í og úr vinnu. Launþegar á jaðarsvæðum fá 2,1 danska krónu (DKR) í skattafslátt fyrir hvern ekinn kílómetra sem ekið er umfram 24 km á hverjum vinnudegi. Taxtinn er sá sami fyrir hvern kílómetra umfram 120 km. Á heimasíðu ríkisskattstjórans í Danmörku má sjá hvaða svæði eru skilgreind sem jaðarsvæði, en mörg þeirra eru í útjaðri Danmerkur. Jaðarsvæðin eru skilgreind út frá ákveðnum þáttum, t.d. lágum tekjum þar sem tekjur á hvern íbúa fara ekki yfir 90% af landsmeðaltali, en einnig er litið á íbúaþróun við mat á jaðarsvæðum. Auðvitað er hægt að gera það á Íslandi og við þekkjum það að gríðarlegur munur er á tekjum eftir landshlutum.

Í Svíþjóð er skattafsláttur veittur samkvæmt eftirfarandi skilyrðum: Þar þurfa að vera minnst 5 km á milli heimilis og vinnustaðar, og launþegi þarf að spara samanlagt tvær klukkustundir í ferðatíma við það að nota bíl fremur en opinber samgöngutæki. Það er sem sagt verið að hvetja til þess að nota almenningssamgöngur ef það er hægt, ef svo er ekki grípur kerfið inn í. Síðan eru nánari útfærslur á því eftir mismunandi dagafjölda og heildarakstri. Skattafslátturinn er til að mynda einungis veittur fyrir útgjöld umfram 10.000 sænskar krónur. Ef almenningssamgöngur eru ekki mögulegar í minnst 2 km af leiðinni á milli heimilis og vinnu er veittur skattafsláttur fyrir alla leiðina í bíl. Taxtinn er þar 18,50 sænskar krónur (SEK) fyrir hverja mílu sem ekin er. Augljóst er að bæði í Danmörku og Svíþjóð eru fjarlægðirnar mjög stuttar og býst ég við að hér á landi mundu menn miða við lengri fjarlægðir til að byrja með.

Í Noregi er svipað fyrirkomulag og í Danmörku og Svíþjóð þegar kemur að skattafslætti vegna aksturs í og úr vinnu. Greitt er fyrir unna vinnudaga, þ.e. veikindadagar og aðrir koma til frádráttar. Taxtinn til að mynda fyrir árið 2011 er 0,7 norskar krónur (NKR) fyrir hvern kílómetra að frádregnum ákveðnum neðri mörkum, sem eru 13.950 NKR. Síðan er sett upp dæmi sem sýnir þann afslátt sem viðkomandi sem ekur tiltekna vegalengd getur fengið. Hér er um að ræða allverulegar fjárhæðir, 3.000–4.000 NKR eða 70.000–80.000 kr.

Launþegar búsettir í Noregi sem sækja vinnu í öðru landi eiga reyndar líka rétt á afslætti vegna aukaútgjalda, þ.e. vegna matar, húsnæðis og heimsóknarferða. Lögheimili skal vera skráð í Noregi og launþegar skulu greiða skatt til viðkomandi sveitar- eða bæjarfélags. Einnig þurfa þeir að þiggja laun samkvæmt launasamningi. Gerðar eru kröfur um ákveðinn fjölda ferða á milli vinnustaðar og heimilis. Reglurnar eru því ólíkar eftir því hvort viðkomandi er fjölskyldumaður eða ekki.

Hér er reyndar einungis talað um að styrkja ferðir í og úr vinnu á skilgreindum atvinnusvæðum hér innan lands, við mundum byrja á því. Eðlilegt væri að hitt yrði tekið með ef sú þróun heldur áfram sem við höfum fylgst með á síðustu árum að allnokkur hópur Íslendinga þarf að vinna hluta úr ári, jafnvel stóran hluta af árinu í öðru landi til þess að framfleyta fjölskyldu sinni. Hefur Noregur verið nefndur oftast í því sambandi.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar, frú forseti. Hugmyndafræðin er sem sagt sú að ríkið komi að því að jafna búsetuskilyrði á landinu, að veita mönnum þann möguleika að viðhalda búsetu sinni, að geta valið sér búsetu og haft vinnu á því atvinnusvæði þar sem þeir búa, sem við höfum verið sammála um að eigi að fara sístækkandi. Þarna er í raun og veru verið að jafna kjörin og þá þjónustu sem hið opinbera býður upp á með því að niðurgreiða almenningssamgöngur á sumum svæðum, en þar sem það er ekki hægt verði þessi valkostur nýttur. Ísland er eitt dreifbýlasta land í heimi og þrátt fyrir að almenningssamgöngur séu góðar og fari vaxandi eins og á liðnum missirum, megum við aldrei gleyma því að bíllinn mun um ókomna tíð verða okkar helsta samgöngutæki, ekki síst þeirra sem búa úti í dreifbýlinu, á landsbyggðinni. Þeir eiga eiga þann rétt eins og aðrir Íslendingar að geta búið í heimasveitarfélagi sínu og stundað vinnu þó að vinnan sé í nágrannasveitarfélaginu, enda hafa menn stefnt að því að stækka atvinnusvæðið.

Frú forseti. Að lokum legg ég til að þingsályktunartillögunni verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. og vona að málið fái þar faglega og góða umfjöllun og komi til afgreiðslu áður en þingi lýkur í vor.