141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

skattafsláttur vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.

105. mál
[14:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er bæði sanngjarnt og réttlátt, að ef menn kosta mjög miklu til ferðalaga vegna þess að bensín er orðið mjög dýrt út um heim eigi það ekki að skattleggjast sem tekjur heldur megi draga það frá tekjuskatti. Það getur vel verið, og það verður væntanlega skoðað í nefnd, að það jafnvel borgi sig fyrir alla aðila að fara þessa leið í stað þess að menn verði atvinnulausir á einum stað og svo vanti fólk á öðrum stað eða þá að menn eru bundnir við fasteignir. Það getur vel verið að það sé þjóðhagslega hagkvæmt og það borgi sig fyrir ríkissjóð að veita afslátt. Þetta verður væntanlega skoðað fyrir utan það hvað er sanngjarnt og réttlátt fyrir viðkomandi launþega.

Ég gleymdi dagpeningum og sjómannaafslætti í ræðunni áðan en ég held kannski aðra ræðu um það á eftir.