141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

barnalög.

323. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur ítreka þakkir mínar fyrir þessa ábendingu. Þar sem staðan er þannig að við sitjum bæði, ég og hv. þingmaður, í velferðarnefnd þá held ég að við munum bara kalla eftir því þegar við sendum málið út til umsagnar að það verði sent til dæmis til Siðfræðistofnunar og hugsanlega til fleiri aðila sem mundu koma og velta þessum vinkli upp fyrir okkur. Við þurfum að hugsa um þetta, það er bara þannig. Við þekkjum það, við sem erum orðin það fullorðin að þekkja jafnvel fólk sem hefur verið leynt því að það væri ættleitt og hefur síðan uppgötvað það jafnvel eftir að það var orðið fullorðið, að það getur haft ákveðnar afleiðingar.

Við þurfum því að velta öllum hliðum þessara mála upp. Ég er svo sannarlega tilbúin til að gera það í vinnunni við málið í nefndinni.