141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta er svo sérstakur dagur að maður er enn þá næstum því meyr og orða vant. Þegar þessi stórkostlegu gleðitíðindi brjótast eins og sólargeisli inn í grámósku vetrarins get ég ekki hafið mál mitt öðruvísi en að segja: Til hamingju, Ísland.

Við Íslendingar höfðum fullan sigur í öllum þáttum Icesave-málsins fyrir EFTA-dómstólnum þegar úrskurður féll í morgun. Sigur Íslands var svo algjör að ESA sem kærði okkur var meira að segja dæmt til að greiða allan málsvarnarkostnað Íslands sem sýnir kannski betur en flest annað hversu fráleit dómstólnum þótti kæran. Þegar ég skimaði yfir dóminn sýndist mér sem dómurinn hefði tekið allar röksemdir Íslands til greina utan hugsanlega eina.

Ég verð að segja að það er ótrúlegt gleðiefni að geta úr þessum stóli glaðst yfir þeim kaflaskilum sem nú hafa orðið í eftirleik hrunsins því að með þessum algjöra sigri okkar fyrir dómstólnum í morgun er rutt úr vegi erfiðustu torfærunni á leið okkar til efnahagslegrar endurreisnar eftir hrun bankakerfisins. Ég vil líka segja að í þessu máli skipti ekki minnstu að eftir að málið fór í farveg dómsmáls var algjör samstaða um það hvernig ætti að reka málið. Þar voru öll sjónarmið tekin inn og þess gætt að ólík sjónarmið ættu fulltrúa í málsvarnarteyminu sem ég skipaði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Við ykkur, ágætu þingmenn, og okkur öll vil ég segja að við eigum að læra af þessu, stjórnmálamennirnir sem hér sitjum. Samstaðan skiptir máli og þegar upp er staðið skilar hún bestum árangri fyrir Ísland. Það eru full rök til að halda því fram að þetta mál sé eitt hið erfiðasta sem við Íslendingar höfum glímt við allt frá því að við unnum okkur sjálfstæði. Það er óhætt að segja að það hefur hvílt eins og mara, ekki bara á okkur sem hér höfum setið heldur á þjóðinni allri. Það hefur verið langerfiðasta málið í samskiptum okkar við umheiminn í kjölfar hrunsins. Ég vil ekki síst á þessari sérstöku stundu færa okkar öfluga málsvarnarteymi undir forustu breska málflutningsmannsins Tims Wards bestu þakkir og hamingjuóskir okkar allra með glæsilega málsvörn fyrir Íslands hönd. Í mínum augum var það ekki minnsta afrekið að ná því fyrir okkar hönd að hrinda þeirri sakargift sem fólst í meintri mismunun en fyrir fram höfðu jafnvel bestu og nánustu vinir Íslands gefið sér að ómögulegt væri að verjast áfelli varðandi þann þátt málsóknarinnar. Hárfín og hugvitsamleg rökfærsla Tims Wards og hans öfluga alþjóðlega teymis er lögfræðilegt meistaraverk sem á eftir að rata inn í kennslubækur framtíðarinnar á sviði Evrópuréttar. Með þessari niðurstöðu er því mikilvægum áfanga í langri leiðindasögu lokið og við Íslendingar getum haldið áfram vel heppnaðri endurreisn án þess að búast við því að fá Icesave-málið eins og níðþungt blýlóð ofan á þær klyfjar sem við tókum í fangið með hruni bankanna.

Á þessu augnabliki er líka óhjákvæmilegt að rifja það upp að allt stóðst það sem Ísland sagði um styrk og getu hins fallna banka til að standa straum af þeim lágmarksgreiðslum sem EES-samningurinn mælti fyrir um að greiða skyldi innstæðueigendum. Strax í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar 5. desember 2008 kom fram sú skoðun að hinn fallni banki gæti að líkindum staðið undir öllum tryggingunum. Það mat reyndist í hárfínu samræmi við veruleikann, og ef eitthvað var það of varfærið. Í samræmi við þetta er nú þegar búið að greiða út fjárhæð sem samsvarar ríflega 90% af þeim hluta sem bresk og hollensk stjórnvöld lögðu út vegna lágmarkstryggingarinnar. Við erum búin að greiða út 660 milljarða, þar af 585 í Icesave-innstæðurnar sem eru 93,5% af lágmarkstryggingunum. Það er enginn vafi á því að fjárhagsleg geta búsins er snöggtum meiri en þarf til að greiða allar forgangskröfur að fullu og meira til. Íslendingar munu því standa í skilum samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Icesave-kröfurnar munu þegar upp verður staðið verða greiddar af réttum skuldara, þrotabúi Landsbankans, og meira að segja langt umfram það sem dómur EFTA-dómstólsins fjallaði um og langt umfram það sem annars hefði fengist upp í þær ef íslensk stjórnvöld hefðu ekki með einróma samþykki Alþingis á sínum tíma samþykkt neyðarlögin sem breyttu forgangi krafna innstæðueigendum í vil. Það er því rétt að árétta á þessari stundu á þessum sérstaka degi að það var sameiginleg aðgerð þings og ríkisstjórnar með samþykkt neyðarlaganna sem tryggði að innstæðueigendur fá allan sinn höfuðstól að fullu greiddan.

Allt frá upphafi þessa ólánsmáls haustið 2008 voru allir því sammála, eins og Ísland hefur staðfastlega haldið fram, að stjórnvöld hér á landi hafi staðið við allar lagalegar skuldbindingar ríkisins — og gott betur en það. Hins vegar er jafnljóst að Bretland og Holland, þau lönd þar sem innstæðureikningar voru í útibúum Landsbankans, hafa verið á algjörlega öndverðum meiði. Sjónarmið þeirra nutu lengst af víðtæks stuðnings í alþjóðasamfélaginu. Afstöðu okkar var ekki einungis hafnað af þeim, heldur einnig af öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins, framkvæmdastjórninni og Eftirlitsstofnun EFTA.

Haustið 2008 var kannað til þrautar hvort hægt væri að koma málinu til faglegrar og vandaðrar lögfræðilegrar úrlausnar. Slíkt reyndist ekki unnt á þeim tíma ef frá er talið boð um fyrirvaralausan gerðardóm í kjölfar hins fræga ECOFIN-fundar þar sem niðurstaðan virtist fyrir fram ráðin og Ísland hafnaði. Í þröngri stöðu þar sem við töldum að efnahagslegu sjálfstæði Íslands væri ógnað var því ítrekað reynt að leysa vandann með samningum. Það var gert í samræmi við álit meiri hluta utanríkismálanefndar á þeim tíma sem lýsti vel forsendunum fyrir þeirri leið. Þar réði einkum tvennt. Annars vegar voru stjórnvöld sannfærð um að þrotabú Landsbankans mundi standa undir öllum innstæðukröfum í búið eins og síðar hefur komið á daginn. Hins vegar var ljóst að pólitísk lausn á þessu máli var skilyrði þess að fjárhagsleg fyrirgreiðsla fengist frá þeim ríkjum sem voru reiðubúin að styðja okkur til að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins næði fram að ganga. Kjarni þess mats sem lá samningaleiðinni til grundvallar var vel orðaður í ræðu þáverandi formanns utanríkismálanefndar og núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann mælti fyrir áliti nefndarinnar og sagði ljóst, með leyfi forseta, „að það þurfti að leita pólitískrar lausnar á vandamálinu“ og sömuleiðis þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Hagur þess að lausn finnist við samningaviðræður er því ótvíræður.“

Um þetta risu einar mestu deilur á síðari tímum með okkar ágætu þjóð sem leiddu til þess að hún neytti stjórnskipulegs réttar síns í gegnum þjóðaratkvæði í krafti málskotsréttar forseta til að hafna samningunum sem voru gerðir í kjölfarið. En um leið má segja að stjórnskipun okkar hafi staðist prófið. Lýðræðið, eins og það er útfært í stjórnarskrá landsins, virkaði. Stjórnskipunin reyndist fær um að setja niður deilur og setja Icesave-málið í farveg sem mikil samstaða náðist að lokum um og leiddi til þeirrar farsælu niðurstöðu sem felst í dómnum frá í morgun. Það er líka gleðiefni fyrir okkur sem þjóð.

Í öllu ferli málsins eftir að það komst í lagalegan farveg er athyglisvert að EFTA-dómstóllinn hefur sætt gagnrýni og hann hefur verið sakaður um að ganga pólitískra erinda stórvelda og hafa ekki styrk í hnjáliðum til að geta vegið og metið mál smáþjóðar út frá hlutlægum forsendum. Þeir sem gáfu sér fyrir fram hnjáliðamýkt dómstólsins höfðu rangt fyrir. Ég vil segja að á þessum degi tek ég hatt minn ofan fyrir EFTA-dómstólnum fyrir að hafa styrk og þor til að komast að þessari niðurstöðu þrátt fyrir allan hræðsluáróðurinn sem að honum var haldið af hálfu gagnaðila okkar í málinu, ekki aðeins af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnarinnar, heldur líka Breta og Hollendinga. Dómurinn stóðst undir forustu Carls Baudenbachers, fulltrúa Liechtensteins, alla þá áraun sem felst í því að stikla eins og laxinn gegn straumnum.

Frú forseti. Tilfinningar mínar á þessum degi eru bara á einn veg og ég veit að ég tala fyrir munn allra sem réttlætinu unna þegar ég lýk máli mínu með því sama og ég hóf það á:

Til hamingju, Ísland.