141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þau tíðindi sem við fengum í morgun eru svokölluð gleðitíðindi og mér finnst ákaflega mikilvægt að missa ekki umræðuna um þau út í of miklar deilur eða sakbendingar, heldur að við kunnum einfaldlega að gleðjast yfir þeim. Hvað mig varðar þá bjó ég mig undir það versta og vonaði það besta. Ég held að flestir Íslendingar hafi upplifað málið þannig. Það hefði getað farið á alls konar vegu, þetta dómsmál. Ég hugsa að þeir sem skrifuðu ræður fyrir þessa umræðu hafi flestir gert tvær útgáfur og séu þá búnir að henda hinni í ruslið núna. (Utanrrh.: Skrifað þær eftir 10.30.) Akkúrat.

Við vissum einfaldlega ekki hvernig málið mundi fara, við vitum núna hvernig það fór og það er náttúrlega gríðarlega ánægjulegt. Nú er þetta leiðindamál úr sögunni. Mér finnst mjög mikilvægt að við minnum okkur öll á að allir sem tóku þátt í að rökræða málið, og rökræðan gat verið ansi heit, gerðu það á grundvelli sinnar bestu vitundar, samkvæmt skilningi sínum á stöðunni og út frá túlkunum sínum á þeim upplýsingum sem fyrir lágu á hverjum tíma. Ég held við eigum öll að viðurkenna það, horfast í augu við það og fagna og gleðjast yfir því að við vorum öll að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar á hverjum tíma.

Ég held að tíminn hafi líka unnið með okkur í málinu. Ég er ekki viss um að það hefði ríkt svona mikill skilningur á málsvörn okkar strax eftir hrun, tíminn vann með okkur í því, hann jók skilning alþjóðasamfélagsins. Ég held að rökræðurnar hér innan lands hafi hjálpað okkur í því að gera málsvörnina góða. Við vorum öll orðin allt of miklir sérfræðingar í þessu leiðindamáli, meiri sérfræðingar en við sáum fyrir að við mundum nokkurn tímann verða. Svo er náttúrlega mjög mikilvægt að betri heimtur hafa orðið úr eignum þrotabús Landsbankans en við þorðum að vona, þannig að það hefur allt hjálpast að.

Mér er efst í huga þakklæti til málsvarnarteymisins. Ég sá það á fundi með fulltrúum þeirra í morgun að úr andlitum þeirra skein einlæg gleði. Við eigum að nýta okkur núna þá bjartsýni sem við finnum vonandi á þessari stundu sem gott veganesti til að glíma við öll þau fjölmörgu verkefni sem blasa við okkur. Megi framtíðin verða björt.

Þessi hundleiðinlegi gluggapóstur kemur þá vonandi ekki aftur inn um lúguna.