141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það hlýtur að vera mikill léttir fyrir okkur öll að hafa fengið þá niðurstöðu sem EFTA-dómstóllinn kynnti í morgun. Icesave-málið hefur sett svip sinn með óþægilegum hætti á allt stjórnmálalíf hér undanfarin fjögur ár og markað samskipti okkar við aðrar þjóðir með ýmsum hætti. Það hefur markað samskipti hér innan þings og í samfélaginu með mörgum hætti og það er léttir fyrir okkur öll að hinum lagalega þætti sé lokið því að ekki verður annað séð en að EFTA-dómstóllinn hafi tekið undir málflutning Íslands að öllu leyti og hafnað að öllu leyti málflutningi Eftirlitsstofnunar EFTA, Breta og Hollendinga og Evrópusambandsins. Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar horft er til þess að með slíkri niðurstöðu verður ekki séð að neinir möguleikar séu fyrir gagnaðila okkar að reka málið áfram með nokkrum hætti.

Í framhaldinu skiptir auðvitað máli að við höldum áfram að kynna málstað okkar gagnvart öðrum þjóðum, bæði stjórnvöldum og aðilum í efnahagslífi annars staðar vegna þess að auðvitað hefur Icesave-málið haft skaðleg áhrif á orðspor Íslands víða. Þar hefur svo mörgu röngu verið haldið fram um ábyrgð Íslands á skuldbindingum einkafyrirtækja og annað þess háttar. Það er mikilvægt að hinum réttu upplýsingum verði áfram komið á framfæri.

Þó að þetta sé gleðidagur getum við heldur ekki horft fram hjá því með hvaða hætti málið hefur haft áhrif á stjórnmálasögu okkar síðustu fjögur árin. Við getum ekki horft fram hjá því að hér hefur í þessum sal verið tekist á um málið hvað eftir annað. Hér voru hörð átök um fyrsta Icesave-frumvarpið 2009. Hér voru hörð átök haustið og veturinn 2009 um annað Icesave-frumvarpið. Hér var líka harður bardagi veturinn 2010–2011 um þriðja Icesave-frumvarpið. Þeir sem rekið hafa málið áfram, ríkisstjórn Íslands og einstakir ráðherrar þar, verða auðvitað að sæta því að orð þeirra og gerðir á þeim tíma í hverju skrefi málsins, í hverri lotu málsins verði rifjuð upp. Það er ekki dagurinn til að gera það núna en þeir eiga ekki að láta það koma sér á óvart þó að það verði gert í framhaldinu.

Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ýmislegt í ræðu hans í upphafi umræðunnar. Ég þakka honum fyrir þær þakkir sem hann færði þeim sem staðið hafa að þessum málflutningi fyrir Íslands hönd og fyrir þá samstöðu sem verið hefur um málflutninginn eftir að það fór í hinn lagalega farveg fyrir EFTA-dómstólnum. Hæstv. utanríkisráðherra skautaði að vísu nokkuð léttilega yfir árin þar á undan, en látum það vera. Við erum sammála um það, ég og hæstv. utanríkisráðherra, að vel hafi verið staðið að málum eftir að málið fór í dómstólafarveginn.

Ég þakka líka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að benda á að á þeim álagstíma sem við upplifðum í kjölfar hrunsins stóðst íslenska stjórnarskráin prófið. Það er mikið umhugsunarefni, sérstaklega á tímum þegar talað er um að brýn nauðsyn sé á að breyta öllu í sambandi við stjórnskipun Íslands. En það er alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra benti á að þegar íslenska stjórnarskráin gekk undir grundvallarpróf á óróleikatímanum og erfiðleikatímanum í kjölfar hrunsins þá virkaði hún. Það var ýmislegt annað í samfélaginu sem brást en stjórnarskráin virkaði. Það er rétt að rifja það upp í þessu sambandi.

Í þriðja lagi finnst mér ástæða til þess að taka undir það með hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrími J. Sigfússyni að auðvitað þurfa ýmsir að horfa í eigin barm, ýmsar Evrópuþjóðir, alþjóðlegar stofnanir. Þær þurfa vissulega að horfa í eigin barm. Við getum nefnt Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, við getum nefnt Evrópusambandið, við getum nefnt Norðurlandaþjóðirnar, en hæstv. atvinnuvegaráðherra gleymdi auðvitað ríkisstjórn Íslands sem þarf svo sannarlega að horfa í eigin barm þegar farið er yfir feril hennar í þessu máli, hvernig hún reyndi að koma Icesave I í gegnum þingið, hvernig hún reyndi að koma Icesave II í gegnum þingið og hvernig hún barðist gegn þjóðaratkvæðagreiðslum um málið hvað eftir annað. Það er auðvitað þörf á því að við rifjum það upp, sérstaklega þegar í hlut eiga stjórnmálamenn sem státa af því að vera hinir mestu lýðræðissinnar og þjóðaratkvæðagreiðslusinnar í sögu Íslands. Hvernig brugðust þeir við þegar beðið var um (Utanrrh.: Hvernig brást Sjálfstæðisflokkurinn við?) þjóðaratkvæðagreiðslur í málinu. (Forseti hringir.) Ég greiddi alltaf atkvæði gegn málinu. (Utanrrh.: Þú já, en ekki Sjálfstæðisflokkurinn.)