141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og sagt að ástæða sé til að gleðjast. Ekki er mjög langt síðan, kannski fjögur ár, að þingmenn fóru ekki svo upp í þennan stól að þeir ræddu ekki um brimskafla og kólguský og ýmiss konar boðaföll og hamfarir. Við verðum að horfa til þess að mjög margt jákvætt hefur gerst á Íslandi undanfarin fjögur ár og mér finnst niðurstaða dómstólsins í dag enn eitt jákvæða teiknið á lofti fyrir Ísland. Full ástæða er til að horfa bjartsýn fram á veginn og það er líka full ástæða til þess, eins og ýmsir hv. þingmenn hafa nefnt, og ég tel að það geti farið saman, að læra af sögunni. Það er nauðsynlegt að horfa til þess sem vel er gert en það er líka nauðsynlegt að horfa til baka. Reyndar verður haldinn fyrirlestur í þessari viku sem einmitt snýst um hvað/ef-söguna og það er hollt að velta því fyrir sér hvaða valkosti Ísland átti á hverjum tíma í þessu máli.

Eins og ágætlega hefur verið farið yfir hér var staða Íslands mjög þröng haustið 2008 þegar ákveðið var að leita pólitískrar lausnar á þessu máli. Ný ríkisstjórn tók við málinu í þeim farvegi. Þegar litið er til baka, eftir á að hyggja, voru kannski ekki margar leiðir færar þegar fyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og ekki bara hans heldur líka Norðurlandanna, hékk á þeirri spýtu að lausn fyndist á málinu, pólitísk lausn, samninga yrði leitað. Að sjálfsögðu herjuðu Hollendingar og Bretar mjög á alþjóðavettvangi og beittu áhrifum sínum þannig að vissulega var staðan þröng. Þó finnst mér ástæða til að minna á að íslensk stjórnvöld hafa alltaf haldið því til haga að óvissa ríkti um lagalega ábyrgð og íslensk stjórnvöld viðurkenndu aldrei að þau bæru lagalega ábyrgð.

Eins og hér hefur verið bent á hefðu aðrir aðilar þurft að fallast á að leita með málið til dómstóla og því má kannski segja, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi, að tíminn hafi hjálpað okkur í þessu máli. Ég er sammála því mati, ég held að tíminn hafi hjálpað okkur. Umræðan náði að þroskast og þróast. Skilningur jókst á málstað Íslendinga að einhverju leyti og vissulega var sýnt að Íslendingar höfðu reynt að finna pólitískar lausnir sem gengu hins vegar ekki upp. Það má því segja að það að leita pólitískra lausna hefði að einhverju leyti verið áhættuminna því að enginn vissi hver niðurstaðan yrði úr þessum dómi. En nú þegar niðurstaðan liggur fyrir — hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var bjartsýn og aðrir hv. þingmenn hafa verið á þeirri skoðun. Ég þorði hins vegar ekki að leyfa mér að reikna með að niðurstaðan yrði þessi en ég fagna henni af öllu mínu hjarta. Ég tek undir það að við eigum nú að horfa fram á veginn en líka velta því fyrir okkur hvort eitthvað hefði mátt betur fara.

Við eigum líka að velta því fyrir okkur hvert við stefnum núna. Það sem er merkilegt við þennan dóm, ekki aðeins fyrir Ísland, er að hann sýnir að allt það kerfi sem búið var að innleiða af Evrópusambandinu var meingallað. Á því hafa ákveðnar breytingar verið gerðar síðan enda hefur þróun mála í Evrópu vafalaust líka haft einhver áhrif á þá niðurstöðu sem núna fæst. Margt hefur verið leitt í ljós um hversu meingallað þetta kerfi er og það er mikilvægt að við horfum til þess hvernig halda á á málum í Evrópu í framhaldinu og hvernig við Íslendingar ætlum að taka þátt í því.

Mér finnst það gríðarlega mikilvægt sem hér hefur verið sagt: Eftir að Íslendingar reyndu það á eigin skinni hvernig það er að vera undir mikilli pressu, hvort sem er frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu og jafnvel frændþjóðum okkar — þó að við fengjum stuðning og ég nefni nú Færeyinga og ég nefni Pólverja sem studdu okkur — þá vekur það mér í öllu falli von í brjósti að upplifa það að smáþjóð fái þessa niðurstöðu út úr dómstólnum. Ég vil að lokum taka undir með öllum þeim sem hér hafa talað, hæstv. utanríkisráðherra og fleirum: Ég held að við getum öll sameinast um að færa málflutningsteymi okkar þakkir fyrir þeirra frammistöðu. Ég held að þar hafi verið vel á málum haldið, vel haldið utan um röksemdir Íslands. Ég held að við getum verið stolt af því í dag.