141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

510. mál
[16:24]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja reglulega máls á umræddu álitamáli. Eins og ég hef áður sagt er mikilvægt að draga þann lærdóm af efnahagshruninu að hér verði til sterk hagstjórnareining en tryggja verður að kraftar verði ekki of dreifðir á því sviði.

Í skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram tillaga um að stofnuð yrði sjálfstæð ríkisstofnun sem starfaði á vegum Alþingis og hefði það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði á sínum tíma.

Eins og áður hefur komið fram hefur ýmislegt breyst í stjórnsýslu efnahagsmála undanfarin missiri. Stefnumörkun og stjórnsýsla efnahagsmála er nú skipað í fjármála- og efnahagsráðuneyti og sama ráðuneyti fer nú með yfirstjórn málefna er varðar Seðlabanka Íslands. Við breytingu á lögum um Hagstofu Íslands árið 2009 var sett á laggirnar sjálfstæð rannsóknareining sem aðskilin er hagskýrslustarfseminni. Þá birti Seðlabankinn þjóðhagsspár sínar oftar en áður, eða fjórum sinnum á ári.

Þrátt fyrir þessar breytingar innan stofnana framkvæmdarvaldsins tel ég að sterk rök hnígi til þess að hugað sé að því að koma á fót sérstakri óháðri einingu eða sérfræðistofnun sem gæti fylgst með og lagt mat á þjóðhagsþróunina og komið jafnframt að gerð þjóðhagsspár.

Síðan hv. fyrirspyrjandi vakti síðast máls á þessu álitamáli í þinginu fyrir hartnær ári hefur málið verið rætt á vettvangi Alþingis og Stjórnarráðsins. Þá hefur sérstakur starfshópur sem skoðaði skipan efnahags- og viðskiptamála innan Stjórnarráðsins skilað af sér. Starfshópurinn velti fyrir sér nokkrum mismunandi möguleikum til að byggja upp og þróa sérfræðiþekkingu í efnahagsmálum utan Stjórnarráðsins. Einn þessara möguleika var að stofna sérstaka hagdeild á vegum Alþingis, hugsanlega í tengslum við Ríkisendurskoðun. Annar möguleiki er að stofna sérstakt efnahagsráð valinkunnra óháðra sérfræðinga til þess að leggja mat á efnahagsáætlanir og hagstjórn. Þriðji möguleikinn sem starfshópurinn velti fyrir sér er að setja á stofn sérstaka sjálfstæða stofnun til að vinna að efnahagsspám og samhæfingu hagstjórnar.

Í ljósi þessara valmöguleika tel ég að sú lausn að stofnuð yrði sérstök hagdeild á vegum Alþingis ætti að vera skoðuð sérstaklega og veit ég til þess að sú leið verður rædd í forsætisnefnd þingsins. Treysti ég því að þingið komi með tillögur þess efnis fljótt og vel, en hjá þingmannanefndinni kom fram vilji að fyrirkomulagi þessara mála yrði að vera ákveðið og rætt á vettvangi þingsins en ekki á vettvangi framkvæmdarvaldsins. Bind ég vonir við að sú skoðun beri fljótt ávöxt.

Burt séð frá bættri þjónustu við þingmenn, sem er löngu tímabær að mínu mati, mun ég mælast til að viðræður hefjist milli viðkomandi ráðuneyta og stofnana um stofnun sérstakrar hagrannsóknastofnunar þar sem kostir og gallar þessarar hugmyndar verða ræddir. Verði niðurstaða þeirra viðræðna jákvæð verður málið að sjálfsögðu lagt fyrir ríkisstjórn. Þessi nýja stofnun gæti haft margs konar hlutverki að gegna. Uppistaða í starfi þessara stofnana væri sérstakt hagráð, en hlutverk þess gæti meðal annars verið að sinna þjóðhagsspám sem Hagstofa Íslands sinnir nú. Þótt Hagstofan hafi sinnt því hlutverki með ágætum tel ég það koma til greina að flytja þá vinnu frá Hagstofunni og til hinnar nýju stofnunar.

Þá sé ég fyrir mér að hagráðið taki ólík hagfræðileg viðfangsefni til umfjöllunar og setji sjónarmið sín fram á opinberum vettvangi. Í kjölfar hrunsins er full þörf á hagfræðilegum greiningum á efnahagslífinu á vettvangi sérstakrar stofnunar í anda gömlu Þjóðhagsstofnunar þar sem meðal annars yrði lagt mat á horfur í þessum efnum.

Ég legg áherslu á að slík stofnun þyrfti að vera sjálfstæð og gagnrýnin eftir atvikum á þróun efnahagsmála, en svona óháð ráð eiga sér hliðstæðu í Danmörku og Svíþjóð.

Hæstv. forseti. Með þessu skrefi yrði búin til sérstök sjálfstæð stofnun sem hefði víðtæku hlutverki að gegna og gæti fyllt út í það tómarúm sem skapaðist þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður fyrir um 11 árum síðan. Með því að setja á fót bæði sérstaka hagrannsóknastofnun og vonandi sérstaka hagdeild innan þingsins værum við að bæta til muna aðgengi þingmanna að hagfræðilegum greiningum og dýpka hagfræðilega umfjöllun um þróun efnahagsmála og þjóðarbúskaparins.

Ég bind vonir við að ákvörðun um hugsanlega stofnun þessarar nýju hagrannsóknastofnunar, hvort sem það verður endanlegt heiti hennar eða ekki, liggi fyrir áður en vinnu við fjárlög næsta árs lýkur.