141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

510. mál
[16:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn og líka svörin frá hæstv. forsætisráðherra.

Ég held að við öll hér á þingi séum sammála um mikilvægi þess að bæta þær upplýsingar sem við fáum varðandi efnahagslífið og þær upplýsingar sem við byggjum síðan ákvarðanir okkar á. Ég er 1. flutningsmaður að frumvarpi um Þjóðhagsstofu, sem byggir einmitt á lögum um þær stofnanir sem falla undir Alþingi, sem sjálfstæða stofnun. Einnig hafa verið ræddir möguleikar á því, eins og hæstv. forsætisráðherra fór í gegnum, að horfa frekar til rannsóknarþjónustunnar hjá norska þinginu þar sem væri sett upp einhvers konar hagdeild við þingið, eins og hæstv. forsætisráðherra talaði um, en líka þyrfti væntanlega svokallaða lagaskrifstofu sem er nú búið að setja á stofn í Stjórnarráðinu en væri mjög brýnt að styrkja (Forseti hringir.) við þingið.

Ég legg líka áherslu á að þó að þarna væri verið að vinna með þessa (Forseti hringir.) hefðbundnu mælikvarða mundum við skoða aðra mælikvarða varðandi til dæmis velferð og líðan fólks, neysluviðmið og jafnvel (Forseti hringir.) einhvers konar fjölskylduvog eða upplýsingar um skuldir heimilanna, sem vantaði mjög mikið þegar við þurfum að fara að taka ákvarðanir um það allt.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna hv. þingmenn á að stutt athugasemd er ein mínúta og að þeir reyni að halda ræðutíma.)