141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga árið 2012.

388. mál
[16:40]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason beinir til mín munnlegri fyrirspurn um rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga árið 2012. Fyrsta spurningin er hvort sá sem hér stendur, velferðarráðherra, hafi gefið leyfi sitt fyrir þeim spurningum sem þar eru settar fram. Svarið er að velferðarráðherra gefur ekki leyfi fyrir vísindarannsóknum, hvorki þessari né öðrum rannsóknum á heilbrigðissviði. Sótt var um leyfi fyrir rannsókninni til vísindasiðanefndar eins og lög mæla fyrir og var umbeðið leyfi veitt 28. ágúst 2012.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: Hefur Persónuvernd gefið leyfi sitt fyrir þeim spurningum sem þar eru settar fram? Svarið er að rannsóknin Heilsa og líðan Íslendinga 2012 er ekki leyfisskyld hjá Persónuvernd. Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar eins og lög mæla fyrir um og var móttaka tilkynningarinnar staðfest með bréfi til embættis landlæknis þann 19. september 2012.

Þriðja spurningin var: Hefur siðfræðiráð Læknafélags Íslands verið spurt álita á þeim spurningum sem þar eru settar fram? Svarið er að siðfræðiráð Læknafélags Íslands hefur ekki verið spurt álits á spurningunum. Engar kröfur eru gerðar til þess að leitað sé umsagnar siðferðisráðs Læknafélagsins áður en viðlíka rannsóknarkannanir eru framkvæmdar. Hlutverk siðfræðiráðs Læknafélags Íslands er að vera ráðgefandi fyrir stjórn félagsins, svæðafélög þess og sérgreinafélög.

Síðasta spurningin var: Hefur Siðfræðistofnun Háskóla Íslands verið spurð álits á þeim spurningum sem þarna eru settar fram? Svarið er að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur ekki verið spurð álits á spurningalistanum enda engar kröfur um að það sé gert áður en viðlíka rannsóknarkannanir eru framkvæmdar.

Hæstv. forseti. Rannsóknin Heilsa og líðan Íslendinga 2012 er nú framkvæmd í þriðja sinn, en fyrri rannsóknir undir sama heiti voru á ábyrgð Lýðheilsustöðvar árin 2007–2009. Gögnum er safnað með spurningalista sem margir aðilar, m.a. úr háskólasamfélaginu, hafa komið að undirbúningi á. Listinn er sendur til 10 þús. einstaklinga um allt land. Rétt er að halda því til haga að öll úrvinnsla gagna í rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga er ópersónugreinanleg, þ.e. það er ekki hægt að rekja hver svarar. Allir sem fá boð um að taka þátt geta hafnað því eða hafnað að svara einstökum spurningum rannsóknarinnar. Þúsundir Íslendinga hafa veitt leyfi sitt fyrir því að unnið sé nafnlaust úr svörum þeirra á liðnum árum og leggja þannig sitt af mörkum til að efla þekkingu um líf og heilsu landsmanna og efla starf sem miðar að bættu heilbrigði þeirra.

Rannsóknin er mikilvæg við mat á heilsu og líðan Íslendinga og upplýsingar úr fyrri rannsóknum hafa nýst meðal annars í forvarnarstarfi Lýðheilsustöðvar og hjá embætti landlæknis, í starfi velferðarvaktarinnar og í vinnu við nýja heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns þótt það sé auðvitað áhugavert að heyra sumar af þessum spurningum. Ég hef ekki séð listann fyrr en ég heyrði þarna nokkrar af spurningunum. En oft er það þannig þegar menn vinna svona ítarlega spurningalista að settar eru inn samanburðarbreytur á bak við sem menn nota til að fylgjast með hvort eitthvert samhengi sé á milli hlutanna og það kann að vera að þess vegna sé spurt um stjórnmálaskoðanir.

Svona til gamans í lokin hefði verið áhugavert ef þingmaðurinn hefði bæði lesið spurningarnar og svörin þegar hann bar þetta fram áðan.