141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga árið 2012.

388. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (U):

Frú forseti. Þó að sé hægt að taka létt á þessum spurningum ef þær hefðu bara verið einar og sér á þorrablóti, þá hefði verið hægt að hlæja að þeim og þetta verið kímni, (Gripið fram í.) en þetta er miklu alvarlegra þrátt fyrir allt en svo. Þetta er spurningavagn sem sendur er út í nafni embættis landlæknis. Ég þekki margt fólk sem hefur komið að máli við mig og sagt: Verð ég ekki að svara þessu sem góður þjóðfélagsþegn? Er mér ekki nánast skipað að svara þessu?

Spurningarnar þarna eru þannig að mér finnst þær nærri því persónulega meiðandi og fólk er hálfskikkað til að svara þeim þar sem þær eru sendar út í nafni eins virtasta embættis í landinu, embættis landlæknis.

Sjáum til dæmis hvaða pólitíska innsæi er gefið í spurningu hjá spyrjanda, þegar hann spyr, með leyfi forseta:

„Flestum finnst þeir tilheyra ákveðinni stétt. Hvaða þjóðfélagsstétt telur þú þig tilheyra?“

Síðan eru taldir upp möguleikar og hvað er nefnt? Lægsta stétt. Telur þú þig tilheyra lægstu stétt? Ég spyr: Hver er lægsta stétt?

Síðan kemur: Verkamannastétt. Lægri millistétt. Millistétt. Efri millistétt og efsta stétt.

Það má vel vera að þetta sé eins og hin klassíska niðurröðun sem aðrir horfa niður á samfélagið. En mér finnst það pólitískt þegar þessu er stillt upp svona.

Síðan er spurt: Áttu við áfengisvandamál að stríða, sefurðu bara í fimm tíma á nóttunni, ferðu í sólböð? — Og með sólbaði er átt við þegar þú liggur meira eða minna nakin/n í sól, eins og stendur í spurningunni. Mér finnst þetta alvörumál, frú forseti.

Síðan er spurt í lokin eins og ég sagði áðan, og krossa á við: Kaustu Borgarahreyfinguna? Kaustu Framsóknarflokkinn? Kaustu Frjálslynda flokkinn? Kaustu Lýðræðishreyfinguna, Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn (Forseti hringir.) eða Vinstri hreyfinguna – grænt framboð? Fólki er síðan boðið að vera áfram á spurningavagninum svo hægt sé að sjá (Forseti hringir.) hvort það kýs þessa flokka áfram í næstu könnun.