141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga árið 2012.

388. mál
[16:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að taka af léttúð á þessum spurningum þótt ég hafi gaman af sumum þeirra. Full ástæða er til þess að gera athugasemdir af hálfu þeirra sem fá þessa spurningalista, ef þeir hafa þær. Aðalatriðið er auðvitað að það er val hvers og eins bæði hvaða spurningum þeir svara og hvort þeir svara. Það skiptir auðvitað miklu máli þegar menn eru að vinna svona röð af spurningum, fylgjast með þróun og hvaða upplýsingar er hægt að rekja að vel sé vandað til verka en auðvitað á að hreinsa út það sem er óþarfi að leita eftir svörum við. Fyrst og fremst er náttúrlega verið að spyrja um heilsu og líðan og reyna að átta sig á því með hvaða hætti þróunin er á hverjum tíma og hvort hægt sé að grípa til einhverra aðgerða til þess að bregðast við ef þróunin er óhagstæð með einhverjum hætti.

Það á auðvitað ekkert skylt við stjórnmálaskoðanir eða óljósar stéttarspurningar. Oft er það nú þannig að svona spurningalistar sækja sér fyrirmyndir erlendis frá og eru í samanburði við kannanir erlendis, til þess að hægt sé að vinna úr þeim með þeim hætti. Athugasemdinni er hér með komið á framfæri í gegnum þessa umræðu. Landlæknisembættið fær athugasemdir hv. þingmanns og getur þá metið með hvaða hætti verður farið í næstu könnun, sem er sú fjórða í röðinni af þessum lýðheilsukönnunum um heilsu og líðan.