141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[16:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er varðar annars vegar innflutning á netþjónum og hins vegar sölu á svokallaðri blandaðri þjónustu til viðskiptavina gagnavera. Jafnframt er lögð til breyting á ákvæði sömu laga sem fjallar um endurgreiðslur á virðisaukaskatti til erlendra fyrirtækja. Um er að ræða tillögur að breytingum sem lúta að því að nema úr gildi ákvæði sem sett voru með lögum nr. 163/2010 og höfðu það að markmiði að bæta samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi. Sú lagabreyting var tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og hafa íslensk stjórnvöld í framhaldinu af því átt í viðræðum við ESA vegna ákvæðanna, fyrst í svokölluðu fortilkynningarferli en svo í eiginlegu tilkynningarferli.

Á haustmánuðum 2012 varð ljóst að ESA teldi verulegan vafa leika á því hvort sá hluti breytinganna sem snýr að blandaðri þjónustu annars vegar og innflutningi á netþjónum og tengdum búnaði hins vegar samrýmdist reglum EES um ríkisaðstoð, þar sem ákvæðin kynnu að teljast sértækar ráðstafanir í skilningi reglnanna. Af þessum sökum er talið heppilegra að afnema þessi ákvæði og leggja þess í stað til breytingu á 3. mgr. 43. gr. laganna um virðisaukaskatt þannig að það ákvæði nái einnig almennt til heimildar erlendra fyrirtækja sem ekki eru með eiginlega starfsemi hér á landi til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innflutnings á vörum. Breytingin samrýmist því ferli sem endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna kaupa á vöru og þjónustu hér á landi hafa verið í um árabil. Þannig verður heimilt að endurgreiða erlendum fyrirtækjum virðisaukaskatt sem fellur til við innflutning á vörum að sömu skilyrðum uppfylltum og gilda um endurgreiðslur við kaup á vöru og þjónustu. Samrýmist þessi heimild þeim almenna tilgangi laga um virðisaukaskatt að um neysluskatt sé að ræða sem borinn verður af endanlegum neytanda viðkomandi vöru eða þjónustu.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru þess vegna þrenns konar:

Í fyrsta lagi er lagt til að afnumið verði ákvæði er varðar sölu gagnavera á hvers kyns blandaðri þjónustu til kaupenda sem búsettir eru erlendis og hafa ekki fasta starfsstöð hér á landi. Eins og áður segir telur ESA vafa leika á því að þetta ákvæði samrýmist reglum EES um ríkisaðstoð.

Í öðru lagi er lagt til að ákvæði 42. gr. A verði fellt brott. Ákvæðið snýr að innflutningi netþjóna og tengds búnaðar þar sem kveðið er á um að innflutningurinn skuli vera undanþeginn virðisaukaskatti. Eins og áður segir telur ESA vafa leika á að þetta ákvæði samrýmist reglum EES um ríkisaðstoð þar sem ákvæðin kynnu að teljast til sértækra ráðstafana í skilningi EES-reglna.

Í þriðja lagi er lögð til breyting laganna á þann veg að endurgreiðsluákvæðið nái jafnframt til innflutnings á vöru. Er talið að með þeirri breytingu verði að nokkru eytt þeirri réttaróvissu sem ríkt hefur meðal annars um m.a. viðskiptavini gagnavera sem ekki eru með starfsemi hér á landi. Þá er ákvæðið almenns eðlis og því ekki talið að það geti falið í sér sértækar ráðstafanir í skilningi EES-reglna.

Ekki er talið að það muni hafa teljandi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum, enda er gert ráð fyrir að beiðnir um endurgreiðslu virðisaukaskatts af innflutningi erlendra fyrirtækja á vörum muni falla að þeim verkferlum sem þegar eru til staðar hjá embætti ríkisskattstjóra og valda óverulegum viðbótarútgjöldum.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi erum við að bregðast hratt við svo hinn vaxandi gagnaveraiðnaður á Íslandi þurfi ekki að búa við langvarandi óvissu um skattumhverfi erlendra viðskiptavina sinna á meðan á formlegri rannsókn ESA stendur.

Við erum líka að standa við þá yfirlýstu stefnu stjórnvalda að tryggja þessum iðnaði sambærileg samkeppnisskilyrði og keppinautum í Evrópu. Hér er ekki um að ræða neinar ívilnanir eða afslætti heldur erum við þvert á móti að færa meðferð á virðisaukaskatti sem erlendir viðskiptavinir greiða til samræmis við meginregluna í íslenskum virðisaukaskattslögum. Málið var unnið í mjög góðu samstarfi og samráði við Samtök gagnavera og með óformlegum samskiptum við sérfræðinga hjá ESA. Lausnin er byggð á norskri fyrirmynd, þ.e. á gildandi ákvæði í norsku virðisaukaskattslögunum sem eru hliðstæð hinum íslensku og hefur verið í gildi án athugasemda. Við erum að breyta fyrirkomulaginu þannig að við náum því markmiði að jafna samkeppnisstöðu okkar hvað varðar gagnaveravæðinguna hér á landi.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.