141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

útgáfa og meðferð rafeyris.

216. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um útgáfu og meðferð rafeyris. Í frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt tilskipan Evrópuþingsins og Evrópuráðsins frá árinu 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæði löggjafar um rafeyri verði færð úr lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og komi þess í stað fram í heildstæðum lagabálki.

Í frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um greiðslur yfir landamæri er tengjast framangreindum tilskipunum PSD og EMDII og enn fremur lögum, nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum, ásamt því að hér sé kominn heildstæður lagabálkur um rafeyri.

Í athugasemdum frumvarpsins er á það bent að greiðslumiðlun og greiðslukerfi séu undirstöður hagkerfisins sem sjá um tilflutning fjármagns í eigu einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og ríkja en lög um greiðsluþjónustu skilgreina greiðslukerfi sem kerfi sem notað er til að yfirfæra fjármuni með formlegu og stöðluðu fyrirkomulagi og sameiginlegum reglum um meðferð, greiðslujöfnun og uppgjör greiðslna.

Löggjöfin gerir ráð fyrir að greiðslukerfi sé að meginstofni til þrenns konar. Það er annars vegar kerfislega þýðingarmikil greiðslukerfi en lög um þau eru nr. 90/1999, í öðru lagi innanhússgreiðslukerfi, samanber leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2005, en þetta eru til dæmis afgreiðslu- og netbankakerfi einstakra fjármálafyrirtækja eða samstæðna og svo í þriðja lagi önnur greiðslukerfi sem falla undir 7. gr. laga um greiðsluþjónustu en það er til dæmis debetkortakerfi Reiknistofu bankanna.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að með rafeyri sé átt við peningaleg verðmæti í formi kröfu á útgefanda sem geymd er í rafrænum miðli, þá með tali á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni í þeim tilgangi að framkvæma greiðslur og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefendum sjálfum. Með greiðsluþjónustu er einkum átt við hefðbundin banka- og kortaviðskipti, þ.e. aðgerðir er tengjast rekstri greiðslureikninga sem gera mögulegt að framkvæma greiðslu. Rafeyrir er aftur á móti andlag rafrænnar greiðslumiðlunar, þ.e. fjármuna, og er í því sambandi lögð áhersla á það hugtaksskilyrði að hann sé greiddur fyrir fram.

Rafeyrisfyrirtæki hafa þrengri starfsheimildir en venjuleg fjármálafyrirtæki þar sem þeim er heimilt að hafa með höndum útgáfu rafeyris og greiðsluþjónustu en einn megintilgangur laga um greiðsluþjónustu var að jafna samkeppnisskilyrði á sviði greiðslukortaviðskipta.

Því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er með sambærilegum hætti ætlað að styðja við samkeppni á rafeyrismarkaði og bæta samkeppnisstöðu rafeyrisfyrirtækja sem vegna þrengri starfsheimilda hafa almennt ekki þörf fyrir jafnkostnaðarsama yfirbyggingu og hefðbundin fjármálafyrirtæki. Sem dæmi um misjafnar kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja annars vegar og rafeyrisfyrirtækja hins vegar er stofnfé viðskiptabanka, lánafyrirtækja og sparisjóða og rafeyrisfyrirtækja en frumvarpsgreinin gerir ráð fyrir, það er 11. gr. þessa frumvarps, að stofnfé rafeyrisfyrirtækis skuli á hverjum tíma nema að lágmarki jafnvirði 350 þús. evra í íslenskum krónum.

Markaður rafrænnar greiðslumiðlunar hefur farið sívaxandi á liðnum árum, meðal annars fyrir tilstilli tækniframfara og aukinnar alþjóðavæðingar og samfara hafa áhyggjur opinberra aðila af þessari þróun mála farið vaxandi. Meðal annars í ljósi skipulagðrar glæpastarfsemi sem ýtir undir þörf á virku eftirliti með rafeyrisfyrirtækjum og greiðslustofnunum. Vinsældir rafeyris eru meðal annars skýrðar með vísan til þess að viðskiptin geti verið hagkvæmari en hefðbundin kortaviðskipti.

Fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki og greiðslustofnanir munu verða starfsleyfis- og eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að ekkert rafeyrisfyrirtæki muni hafa verið starfandi á Íslandi frá setningu laga um fjármálafyrirtæki en til marks um aukinn áhuga hefur verið vísað til þess að Fjármálaeftirlitinu hafi nú þegar borist tilkynningar frá um 100 evrópskum greiðslustofnunum um fyrirhugaða veitingu rafrænnar þjónustu yfir landamæri.

Ef ég fer aðeins í gegnum efni frumvarpsins og fjalla þá í fyrsta lagi um almenn ákvæði þá er sem sagt frumvarpinu ætlað að gilda um útgáfu og meðferð rafeyris en í a-lið 2. gr. er mikilvæg undanþága frá gildissviðinu en ákvæðið gerir að meginstefnu ráð fyrir að tilgreind peningaleg verðmæti, sem geymd eru á miðlum, sem aðeins er unnt að nota innan lokaðs kerfis, falli ekki undir gildissvið laganna ef sú fjárhæð sem geymd er á miðlinum á hverjum tíma fer ekki yfir 100 þúsund krónur. Sem dæmi um slíka undanþágu eru nefnd ýmiss konar fyrirframgreidd kort, svo sem bensínkort og gjafakort, sem aðeins er hægt að nota innan afmarkaðs þjónustukerfis, það er tiltekins þjónustuveitanda eða fyrirtækis eða þá fyrir takmarkað svið vara og þjónustu, þ.e. svokallaðs lokaðs kerfis.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram hjá Samtökum fjármálafyrirtækja að gjafakort eða vildarkort sem tilheyra lokuðu kerfi væru oft og tíðum yfir umræddum mörkum og að í sumum tilvikum hefðu útgefendur endurhlaðanlegra miðla takmarkaðar forsendur til þess að hafa stjórn á því hversu háar fjárhæðir berast inn á miðilinn.

Minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til nefndarinnar 12. desember tók á þessu máli og lagði til, með hliðsjón af sjónarmiðum Samtaka fjármálafyrirtækja og að höfðu samráði ráðuneytisins við framkvæmdastjórn ESB, að fjárhæðarmörkin verði felld brott en fram kemur að á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar hafi verið unnið að skilgreiningu hugtaksins „lokað kerfi“ og að endurskoðun á gildissviði frumvarpsins muni fara fram þegar niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir. Nefndin fellst á að fjárhæðarmörkin falli á brott og leggur til breytingu þar að lútandi.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um útgáfu rafeyris og möguleika á innlausn en þar er fjallað um ákvæði um útgáfu og möguleika á innlausn er varðar til dæmis rétt handhafa rafeyris til innlausnar án tafar og á nafnverði. Skilyrði innlausnar verða að eiga sér stoð í samningi á milli útgefanda og handhafa og verða að vera kynnt handhafa fyrir samningsgerð. Upplýst var fyrir nefndinni að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda væri fjögur ár, samanber 3. gr. laga nr. 150/2007, en að krafa vegna innláns eða verðmæta sem lögð hafa verið inn hjá fjármálafyrirtæki, opinberum sjóði eða öðrum aðila sem hefur heimild að lögum til að taka við innlánum frá almenningi fyrnist á 20 árum frá þeim degi sem verðmætin eru lögð inn það er, fyrning innlána er 20 ár.

Sumir álitu að þörf væri á að skilgreina nánar þann tíma sem handhafi hefur til þess að innleysa rafeyri eftir lok samnings við útgefanda. Tekið var dæmi; að liðnum 12 mánaða gildistíma gjafakorts mætti handhafi ekki nota kortið til greiðslu heldur gæti hann óskað innlausnar gjafakortsins við útgefanda með það fyrir augum að fá til baka peningaleg verðmæti sín. Samtök fjármálafyrirtækja lögðu til við nefndina að innlausnartími rafeyris eftir samningslok yrði sex ár og undir þá tillögu var tekið af hálfu ráðuneytisins sem telur að almennur fjögurra ára fyrningarfrestur muni að óbreyttu eiga við í umræddum tilvikum. Á það féllst nefndin hins vegar ekki og telur nær að um fyrningu fari eftir hliðstæðri reglu og gildir um innlán sem fyrnast á 20 árum en með þeim blæbrigðamun að upphaf fyrningar í tilviki rafeyris miðist almennt við lok samnings eins og að framan greinir.

III. kafli frumvarpsins fjallar um rafeyrisfyrirtækin sjálf og samkvæmt 6. tölulið 4. gr. er gert ráð fyrir að útgefendur rafeyris geti verið rafeyrisfyrirtæki, fjármálafyrirtæki með starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða eða lánafyrirtækis, seðlabankar og opinber yfirvöld, að greindum skilyrðum. Þessir aðilar, að frátöldum rafeyrisfyrirtækjum, þurfa ekki að sækja sérstaklega um starfsleyfi á grundvelli III. kafla frumvarpsins en fullt starfsleyfi veitir heimild til útgáfu rafeyris í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins en takmarkað starfsleyfi gildir aðeins hér á landi.

Það er Fjármálaeftirlitið sem veitir starfsleyfi ef umsækjandi sýnir fram á að stjórnun hans sé skýr, traust og varfærin og háð fullnægjandi eftirliti samkvæmt reglum sem eftirlitið setur. Leyfiskröfur til umsækjanda eiga að taka mið af eðli og umfangi þeirrar þjónustu sem fyrirhugað er að veita en í aðdraganda leyfisveitingar er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar Seðlabanka Íslands og annarra viðeigandi opinberra stofnana.

Samkvæmt 25. gr. frumvarpsins eiga rafeyrisfyrirtækin að varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið í skiptum fyrir rafeyri og halda þeim skýrt aðgreindum frá eigin fé sínu og við gjaldþrot standa þeir fjármunir utan skuldaraðar að því gefnu að eigandi fjármunanna sýni fram á eignarrétt sinn.

Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um eftirlit, réttarúrræði og viðurlög en almennt gildir sú regla að hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila skal Fjármálaeftirliti tilkynnt um það fyrir fram.

Í 41. gr. er kveðið á um rétt handhafa rafeyris til að skjóta ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefndin starfar á grundvelli samkomulags stjórnvalda, Samtaka fjármálafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða og Neytendasamtaka. Nokkrar áhyggjur komu fram af því að umrætt samkomulag er frá júní 2000 og af orðalagi þess að dæma virðist það fyrst og fremst varða kvartanir viðskiptavina fjármálafyrirtækja en verði frumvarpið samþykkt munu rafeyrisfyrirtæki með sama hætti og greiðslustofnanir ekki lengur teljast til fjármálafyrirtækja.

Í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá desember er aftur á móti áréttað að í umræddri grein frumvarpsins er úrskurðarnefndinni veitt lögsaga til að úrskurða í samræmi við samþykktir sínar um ágreining á milli handhafa rafeyris og rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi hér á landi. Ráðuneytið vekur einnig athygli á því inni í minnisblaðinu að vinna við endurskoðun á samþykktum nefndarinnar hafi staðið í nokkurn tíma og það leggi áherslu á að henni ljúki sem fyrst.

Við meðferð málsins bárust nefndinni umsagnir frá Fjármálaeftirliti, Seðlabanka og Samtökum fjármálafyrirtækja og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tók afstöðu til þessara athugasemda í minnisblaði til nefndarinnar eins og áður greinir dagsett 12. desember síðastliðinn. Með hliðsjón af þessum athugasemdum og viðbrögðum við þeim gerði nefndin fjölmargar breytingartillögur við frumvarpið sem ég ætla ekki að rekja hér en gerð er grein fyrir í sérstöku blaði sem liggur fyrir. Alls eru þær 18 og hinir ýmsu töluliðir undir þeim 18 stóru breytingum sem nefndin leggur til.

Nefndin leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Nefndarmennirnir Eygló Harðardóttir og Lilja Mósesdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Fyrirvari Eyglóar er almennur en fyrirvari Lilju lýtur að afmörkun á gildissviði frumvarpsins. Þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Guðlaugur Þór Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins sem átti sér stað 16. janúar síðastliðinn. Undir þetta nefndarálit rita Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, Magnús Orri Schram, Skúli Helgason, Pétur H. Blöndal og svo áðurnefndir þingmenn, með fyrirvara: Eygló Harðardóttir og Lilja Mósesdóttir.