141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

fyrstu Icesave-samningarnir.

[13:36]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er náttúrlega ljóst að ein mistök eru stærst í þessu og þau eru að leyfa þessu máli að verða til. Það bjó til stórhættulega stöðu fyrir Ísland sem alveg fram á gærdaginn var ekki sýnt hvernig landið kæmist frá. Sú staðreynd að íslenskum banka var leyft að safna óhemjuinnstæðum í útibúum á erlendri grund og það átti að heita tryggt af íslenska innstæðutryggingarkerfinu bjó til stórhættulega stöðu fyrir landið. Segja má að það hafi ofvöxtur bankanna í heild sinni gert þegar við á litla Íslandi vorum allt í einu með bankakerfi með mikilli alþjóðlegri starfsemi sem var sjö sinnum stærri en landsframleiðslan, tíu sinni stærri en landsframleiðslan eftir að gengið féll. (Gripið fram í.) Mestu mistökin voru auðvitað að láta svona stóra áhættu opnast upp fyrir Ísland eins og gerðist með þessari stórkostlegu innlánssöfnun í útibúum á erlendri grund.

Örugglega hefði mátt gera margt betur þegar maður lítur í baksýnisspegilinn og ég er ekki að skorast undan því að líta yfir minn hlut í þeim efnum, það er augljóst. Ég sagði í gærkvöldi og ég get endurtekið það að ég sá ekki fyrir að þetta mál mundi verða að þeim ósköpum í íslenskum stjórnmálum sem raun bar vitni. Strax vorið 2009 var ég ekki þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að þetta væri stærsta eða alvarlegasta vandamál Íslands, Landsbankinn gamli mundi að lokum að mestu leyti eiga fyrir þessum skuldbindingum. Það hefur núna komið á daginn þannig að hættan var kannski aldrei eins mikil eins og ýmsir vildu vera láta og veifa jafnvel enn tölum (Forseti hringir.) sem eru fullkomlega óraunhæfar um hvað það hefði kostað að efna mismunandi samninga sem reynt var að gera á sínum tíma.