141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

rannsókn á Icesave-samningaferlinu.

[13:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hefja mál sitt á því að gleðjast yfir niðurstöðunni í gær. Engu að síður er líka nauðsynlegt að fara yfir fortíð málsins og sögu þess. Það er merkilegt að hafa horft upp á það á liðnum árum að það virðist vera íslenskum ráðamönnum mjög erfitt að biðjast afsökunar á mistökum sem sannanlega hafa verið gerð. Þau hafa svo sannarlega verið gerð í þessu máli. Hvort sem hæstv. atvinnuvegaráðherra sættir sig við það eður ei, miðað við þær upplýsingar sem m.a. fjármálaráðuneytið hefur gefið, hefði Icesave-samningur I kostað einhvers staðar á bilinu 200–300 milljarða á núvirði. Áfallnir vextir vegna Icesave III væru nú þegar 46 milljarðar í erlendri mynt og kostnaðurinn 83 milljarðar. Allt þetta höfum við sloppið við, svo að mistökin hafa sannarlega verið gerð og ríkisstjórnin hefur sannarlega staðið fyrir því að reyna að troða þessu á þjóðina

Í þingmannaskýrslunni sem samþykkt var 63:0 var mikið fjallað um bætt siðferði stjórnsýslu og þings. Að biðjast afsökunar er einn lágmarkshluti þess að sýna að menn meini eitthvað með því að bæta siðferðið. Eðlilegast væri að mínu mati að hæstv. ríkisstjórn bæðist lausnar vegna aðkomu sinnar og axlaði þannig ábyrgðina. Alls staðar erlendis þykir fullkomlega eðlilegt eftir slíkar niðurstöður og útreið að ríkisstjórn biðjist afsökunar í kjölfarið og segi af sér. Pólitísk ábyrgð núverandi atvinnuvegaráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra er mest hvað þetta mál varðar. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort ekki sé eðlilegt að fram fari rannsókn á þeirri pólitísku ábyrgð í kringum aðkomu og stefnu ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu öllu.