141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipting makrílkvótans.

[13:52]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það hallaði mjög á okkar málstað og við vorum minni máttar í því að koma rökum okkar og sjónarmiðum á framfæri lengi framan af í þessari deilu. Það var allt of auðvelt fyrir Evrópusambandið og Noreg að benda á okkur og Færeyinga og segja að þarna væru sökudólgarnir.

Ég held að það hafi tekist að snúa þessu talsvert við, m.a. með því að hamra á og koma út upplýsingum um að það eru Noregur og Evrópusambandið sem fara á undan og ákveða einhliða að taka til sín yfir 90% af ráðlagðri veiði. Við höfum lagt í það mikið púður, kostað til þess tugum milljóna, skrifaðar hafa verið greinar, sóttar ráðstefnur, haldnir tvíhliða fundir og unnið mikið með fjölmiðlum að því að reyna að koma rökum Íslands á framfæri. Það hefur tekist í talsverðum mæli þannig að myndin er ekki nálægt því eins svart/hvít lengur í alþjóðlegri umfjöllun um þetta og hún var. Það er líka vitað að Evrópusambandið veit það upp á sig að það er ekki í siðferðilega góðri stöðu til þess að veifa hótunum um viðskiptaþvinganir þegar það er á undan búið að taka ákvörðun um svo stóran hluta veiðinnar. (Forseti hringir.) Ég tel því að okkar staða hafi verulega lagast að þessu leyti.